Pistorius hlýtur reynslulausn

Oscar Pistorius við keppni á Ólympíumóti fatlaðra í Lundúnum árið …
Oscar Pistorius við keppni á Ólympíumóti fatlaðra í Lundúnum árið 2012. AFP/Adrian Dennis

Oscar Pistorius, fyrrverandi ólympíumeistari fatlaðra í spretthlaupi og dæmdur drápsmaður, fékk rétt í þessu reynslulausn sem hefst 5. janúar næstkomandi.

Hann hlaut þrettán ára dóm árið 2016 fyrir að skjóta Reevu Steenkamp kærustu sína til bana á heimili þeirra í Suður-Afríku.

June Steenkamp, móðir hinnar myrtu, lýsti því yfir áður en reynslulausnarnefndin kvað upp úrskurð sinn að hann ætti ekki skilið að losna úr afplánun og skrifaði í bréfi til nefndarinnar að hún drægi í efa að Pistorius hefði fengið hjálp í fangelsinu við þeirri „stjórnlausu reiði“ sem hann glímdi við.

Kvaðst hún auk þess sjálf myndu hafa „áhyggjur af öryggi allra kvenna“ sem hann kæmist í samband við en móðirin kaus að vera ekki viðstödd þegar nefndin kvað upp úrskurð sinn í morgun í Atteridgevillage-fangelsinu skammt frá suðurafrísku borginni Pretoríu. „Mig skortir orku til að horfast í augu við hann á ný á þessum vettvangi,“ sagði hún.

Lést eyðilagður

Eiginmaður hennar og faðir hinnar látnu, Barry Steenkamp, lést fyrr á árinu og sagði ekkjan að hann hefði yfirgefið þennan heim eyðilagður yfir að hafa ekki getað veitt dóttur sinni vernd. Hans hinsta von hefði verið að Pistorius fyndi þörf hjá sér til að greina frá sannindum málsins.

Pistorius kom nú í annað skipti á tæpu ári fyrir nefndina en umsókn hans um reynslulausn var hafnað í mars á þeim forsendum að hann hefði ekki setið af sér þann lágmarkstíma sem þyrfti áður en reynslulausn kæmi til greina. Þann úrskurð dæmdi Stjórnlagadómstóll Suður-Afríku rangan og tók nefndin málið því til afgreiðslu á ný.

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert