Ísland 0,401 frá verðlaunapalli

Hildur Maja Guðmundsdóttir og Thelma Aðalsteinsdóttir lentu báðar á verðlaunapalli …
Hildur Maja Guðmundsdóttir og Thelma Aðalsteinsdóttir lentu báðar á verðlaunapalli í dag. Ljósmynd/Fimleikasamband ÍSlands

Íslensku landsliðin í áhaldafimleikum áttu flottan dag á Norður Evrópumótinu sem fór fram í Svíþjóð í dag.

Kvennalandsliðið endaði samtals með 185,726 í lokaeinkunn sem er aðeins 0,401 minna en Noregur sem lenti í þriðja sæti. Þær Thelma Aðalsteinsdóttir og Hildur Maja Guðmundsdóttir voru á meðal tíu efstu keppenda í dag.

Hildur Maja átti góðan dag á stökki og fékk 12,349 í einkunn og átti einnig frábæran dag í gólfæfingum og fékk þar 12,633 í einkunn. Hún endaði svo samanlagt með 47,498 í einkunn og keppir til úrslita á gólfi og er varamaður á stökki.

Thelma var flott á tvíslá og fékk 11,800 í einkunn og frumsýndi þar nýtt afstökk, tvöfalt heljarstökk með beinum líkama. Hún endaði mótið samanlagt með 47,165 í einkunn og keppir í úrslitum á tvíslá og er varamaður á gólfi.

 Lilja Katrín Gunnarsdóttir fékk 13.066 í einkunn á stökki og keppir til úrslita. Margrét Lea Kristinsdóttir átti góðan dag á slánni og fékk 12,433 í einkunn og keppir í úrslitum.

 Karlalandsliðið endaði í sjötta sæti með samtals 299,791 í lokaeinkunn.

Valgarð Reinhardsson átti flottan dag en hann lenti í  6. sæti á hesti með 13,383 í einkunn, 9. sæti á gólfi, tvíslá og í hringjum og endaði í  9. sæti í heildina í dag. Hann keppir í úrslitum á stökki, tvíslá og svifrá og er varamaður á hringjum.

Dagur Kári Ólafsson lenti í 4. sæti á tvíslá með 13,433 í einkunn í dag og keppir til úrslita. Hann lenti í 10. sæti á stökki, 9.sæti á svifrá og í 10. sæti samtals.

Ágúst Ingi Davíðsson í 6. sæti á gólfi með 13,533 í einkunn og í 7. sæti í hringjum með 12,933 í einkunn og keppir til úrslita á báðum áhöldum.

Martin Bjarni Guðmundsson var í 4. sæti í gólfæfingum með 13,633 í einkunn í dag og í 5.sæti á svifrá með 12,900 í einkunn og 8. sæti á hesti. Hann keppir til úrslita á gólfi, stökki og svifrá.

 Á morgun eru úrslit í einstökum áhöldum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert