„Þetta gekk bara stórvel, hann náði þarna lyftum í öllum greinum og stóð sig bara prýðilega vel,“ segir Örvar Arnarson í samtali við mbl.is en Örvar er þjálfari Sigurjóns Ægis Ólafssonar kraftlyftingamanns, eina íslenska keppandans sem keppti í Special Olympics-flokki nýafstaðsins heimsmeistaramóts í kraftlyftingum með búnaði í Vilníus í Litáen.
Örvar segir af sínum manni fyrir hans hönd en Sigurjón tjáir sig lítið, er haldinn hrörnunarsjúkdómi og spasma sem gerir það að verkum að hann á erfitt með að standa og er bundinn við hjólastól. „Saga hans í þessu sporti er nokkuð löng,“ heldur þjálfarinn áfram, „hann er búinn að æfa hjá mér í fimm eða sex ár og það þykir nokkuð ótrúlegt að hann skuli geta tekið réttstöðulyftu og hnébeygju.“
Sigurjón sé nánast eingöngu í hjólastól eða göngugrind en Örvar kveður viljastyrk hans með eindæmum. „Hann er gríðarlega einbeittur að æfa, hefur mikla löngun til að æfa og æfir vel, hann er grjótharður,“ heldur Örvar áfram en Sigurjón er fertugur að aldri og rekur uppruna sinn til Kirkjubæjarklausturs.
Hann segir frá því að lyftingamyndband af Sigurjóni hafi slegið í gegn á samfélagsmiðlum í sumar þegar hann keppti á Special Olympics í Berlín. „Þegar ég vaknaði við skilaboð daginn eftir var búið að skoða myndbandið yfir milljón sinnum á tólf tímum, það var bara algjör sturlun,“ segir Örvar.
„Hann er bara einstakt eintak af manni, gríðarlega duglegur og iðinn og jákvæður og einbeittur, hann er bara ótrúlegur,“ heldur þjálfarinn áfram.
Sigurjón hafnaði í fyrsta sæti í 83 kg flokki en var reyndar einn í flokknum. Frammistaða hans telst þó með ólíkindum miðað við fötlun manns sem á mjög erfitt með að standa í fæturna. Lyfti Sigurjón 45 kg í hnébeygju, sömu þyngd í bekkpressu og 75 kg í réttstöðulyftu.
Fram undan hjá honum segir Örvar Íslandsmeistaramót í vor og svo sé bara að sjá til hvað dettur inn í kjölfarið. „Þetta eru aðallega Special Olympics sem hann keppir á en þetta er annað skiptið sem við förum á þetta mót, við fórum til Danmerkur þegar það var haldið í fyrra,“ segir Örvar sem sinnir þjálfun sinni á Selfossi og þjálfar íþróttafólk með þroska- eða hreyfihamlanir þar auk þess að þjálfa crossfit-keppendur.