Paralympic-dagurinn á morgun

Ólympíufararnir á Ólympíumót fatlaðra í Tókýó í Japan fyrir tveimur …
Ólympíufararnir á Ólympíumót fatlaðra í Tókýó í Japan fyrir tveimur árum. Ljósmynd/ÍF

Íþróttasamband fatlaðra stendur fyrir Paralympic-deginum í frjálsíþróttahöllinni í Laugardal á laugardaginn 2. desember frá klukkan 13 til 16.

Fjöldi félaga, einstaklinga og fyrirtækja verða með kynningar á svæðinu þar sem gestum verður boðið að  spreyta sig á hinum ýmsu greinum á við boccia, blindrabolta, borðtennis, bogfimi, frjálsum íþróttum og teppakeilu, svo fátt eitt sé nefnt.

Arnór Björnsson leikari og leikstjóri verður kynnir Paralympic-dagsins þar sem hann flakkar á milli kynninga, spreytir sig á hinum ýmsu greinum ásamt því að fræðast nánar um hverja grein fyrir sig.

„Viðburðurinn er stór og skemmtilegur kynningardagur á íþrótta- og lýðheilsumöguleikum fatlaðs fólks á Íslandi.  Fjölmargar þjóðir halda Paralympic-daga og eru þeir misjafnir í útfærslu. Á Íslandi hefur ÍF valið þá leið að nota daginn sem opinn og stóran kynningardag fyrir alla sem vilja finna íþrótt við hæfi óháð fötlun sinni. Það eru allir velkomnir á Paralympic-daginn!“ sagði í tilkynningu frá ÍF.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert