Ég hef skilning á báðum hliðum

Jörundur Áki Sveinsson er yfirmaður knattspyrnumála hjá KSÍ.
Jörundur Áki Sveinsson er yfirmaður knattspyrnumála hjá KSÍ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jörundur Áki Sveinsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá Knattspyrnusambandi Íslands (KSÍ), segir að starfsemi íþróttafélaga á Íslandi sé fyrst og fremst þjónusta við samfélagið.

Sveitarfélög sjái um að aðstaðan sé í lagi og svo sé það félagana að setja sér stefnu um hvernig málum sé háttað.

„Hvernig er staðið að því að velja í lið í hverjum flokki, hvenær er byrjað að getuskipta, hvernig þjálfun er háttað og svo framvegis.“

Hann segir í samtali við mbl.is að það sé ekki einfalt mál og sitt sýnist hverjum í þeim efnum.

Tilefnið er umræða sem skýtur upp kollinum reglulega í samfélaginu um afreksþjálfun barna og unglinga og misjafna athygli sem þjálfarar og félögin veita iðkendum eftir getu. Sjálfur segist hann hafa skilning á báðum hliðum.

Tilfinningar iðkenda og foreldra spila stóra rullu

Jörundur Áki segir þetta geta skapað flækjur og þá spili tilfinningar iðkenda og ekki síst foreldra stóra rullu.

„Það vilja allir það besta fyrir sitt barn og því er eðlilegt að það séu ekki allir sáttir við liðskipan, getuskiptingu og svo framvegis. Það er bara undir hverju félagi komið.“

Hvað afreksmál almennt varðar segir hann að á Íslandi séum við frekar sein til miðað við þau lönd sem við berum okkur saman við.

„Það er bæði okkar tilfinning og það sem við heyrum annars staðar frá. Akademíur þar sem aðeins fáir útvaldir eru í hverjum aldursflokki í hverju félagi þekkjast ekki á Íslandi. Hér geta allir mætt á æfingar sem vilja – sem er gott – við viljum hafa það þannig.

Hins vegar viljum við líka að krakkarnir okkar spili jafningjaleiki og þess vegna er eðlilegt að skipta þeim upp eftir getu en gæta þess þó hvenær þessi skipting hefst. Þetta er álitamál sem erfitt er að meta finnst mörgum.“

Jörundur segir okkur þurfa að hafa svigrúm til framfara og við ættum ekki að hólfa þau of ung í ákveðna flokka.

„Það er mikil áskorun fyrir okkur að sjá til þess að allir fái verkefni við hæfi eftir getu og svo framvegis. Það er ekki gaman að vera einhver sem er lakari en einhver annar og upplifa sig þá kannski ekki vel.

Ég er líka á því að það sé mikil áskorun fyrir okkur sem erum í íþróttahreyfingunni að krakkar fari sjálf út í fótbolta eða aðrar íþróttir. Að þau leiki sér meira og hreyfi sig meira og spili fótbolta eða annað með vinum. Sparkvellir eru víðs vegar um landið og þar verða oft mestu framfarirnar.“

Eigum að þora að byrja að afreksvæða

Segist Jörundur hafa haft þá skoðun lengi að við eigum að þora að byrja að afreksvæða en það sé spurning á hvaða aldri það er.

„Við erum ekki að fara að gera það á aldrinum 5 til 10 ára eða 12 ára að einhverju viti. Við höfum alltaf haft þessar skiptingar í A, B, C, D, E, F og svo framvegis. Það held ég að sé óhjákvæmilegt en svo það sé sagt hafa bæði (Alþjóðaknattspyrnusambandið) FIFA og UEFA (Knattspyrnusamband Evrópu) spurt okkur í KSÍ af hverju það eru ekki akademíur hér á landi eins og tíðkast annars staðar.

Við höfum svarað því þannig að okkar kúltúr leyfi það ekki. Það er enginn sem er eigandi félags á Íslandi. Samfélögin og fólkið eiga félögin og því er mikilvægt að íþróttafélögin sinni uppeldisskyldum sínum og að allir fái tækifæri. Það held ég að sé lykilatriðið í þessu.“

Lið Íslands sem lék í 8-liða úrslitum EM U19 2023.
Lið Íslands sem lék í 8-liða úrslitum EM U19 2023. Ljósmynd/KSÍ

Afreksmál eigi að skoða um 14-15 ára aldur

Hann segir að FIFA telji æskilegt að byrja afreksþjálfun fyrr en gert er hér á landi.

„Það er verið að tala um svona 12 ára aldur. Við erum ekki alveg sammála því. Við viljum að það sé horft til þess að bíða aðeins með þetta, leyfa krökkum að æfa fleiri en eina íþrótt og fá fjölbreytileikann líka. Kúltúrinn okkar er líka þannig að það tíðkast ekki á Íslandi að byrja með afreksþjálfun mikið fyrr.“

Sjálfur er hann þeirrar skoðunar að afreksmál eigi að skoða um 14-15 ára aldur. Þá til dæmis hefji KSÍ sína hæfileikamótun.

„Við köllum þá saman þá krakka sem okkur finnst skara fram úr í samráði við félögin í landinu. Félögin tilnefna þá krakka inn í hæfileikamótunina og þá byrjum við að kynna þeim fyrir landsliðsumhverfinu, hvaða kröfur eru gerðar, hvað þarf til að vera landsliðsmaður og svo framvegis en við leggjum alltaf áherslu á að ef leikmaður er ekki valinn í næsta úrtak þá eru það ekki endalok.

Við höldum áfram að fylgjast með og skoðum einnig þau sem ekki voru valin í fyrsta úrtaki. Stækkum mengið og svo minnkar það eftir því sem krakkarnir verða eldri. Með þessu tryggjum við að þau sem eru kannski seinþroska eða blómstra seinna hafi tækifæri á að koma inn í okkar hópa seinna meir.“

Úr leik Fylkis og Snæfellsness á N1-mótinu í fótbolta á …
Úr leik Fylkis og Snæfellsness á N1-mótinu í fótbolta á síðasta ári. mbl.is/Margrét Þóra

„Megum ekki við því að missa af hæfileikaríkum krökkum“

Dæmi um fótboltamenn sem hafa kannski verið seinni til að skara fram úr eru Alfreð Finnbogason og Hannes Þór Halldórsson.

Jörundur segir KSÍ einnig fylgjast sérstaklega með krökkum sem eru fædd seinna á árinu og eru þá kannski líkamlega seinni til. Segir hann það gott á Íslandi að það sé erfitt að missa af hæfileikaríkum krökkum í íþróttum.

„Við erum svo fá og gott aðgengi til dæmis þjálfara félaganna í landinu af þjálfurum KSÍ skiptir sköpum. Við fáum alltaf ábendingar um efnilega leikmenn og það hjálpar okkur mikið.

Ef við náum ekki að spotta út hæfileikaríka krakka þá fáum við yfirleitt alltaf ábendingu um þá frá félögunum og það hjálpar mikið til. Þá minnka líkurnar á að missa af þessum krökkum,“ segir hann og bætir því við að við megum ekki við því að missa af hæfileikaríkum krökkum alveg sama í hvaða íþróttagrein það er. Þannig þurfum við alltaf að hafa augun opin.

Alfreð Finnbogason og Hannes Þór Halldórsson á fréttamannafundi á HM …
Alfreð Finnbogason og Hannes Þór Halldórsson á fréttamannafundi á HM í Rússlandi 2018. Alfreð skoraði gegn Argentínu á mótinu og Hannes varði eftirminnilega vítaspyrnu frá sjálfum Lionel Messi. mbl.is/Eggert

Íslendingar eru alveg bilaðir

Vésteinn Hafsteinsson afreksstjóri Íþróttasambands Íslands (ÍSÍ) hefur talað um afreksstefnur og hvað þurfi til. Þá hafa einstaka fræðimenn tjáð sig um þessi mál upp á síðkastið, sérstaklega eftir að ÍSÍ tilkynnti um nýja afreksstefnu sem ber yfirskriftina: Vinnum gullið.

Jörundur segir Véstein hafa sagt að við þurfum að sækja til sigurs frá unga aldri, fara í allar keppnir til að vinna og þannig komi sigurhugsun í okkar íþróttafólk.

„Þess vegna er mikilvægt að vera með gott afreksstarf í félögunum og sérsamböndunum. Hæfileikamótunin er líka bara alþekkt og nauðsynleg fyrir okkur sem erum að vinna í afreksmálum.

Við gerum kröfu um að vinna alla leiki, Íslendingar eru alveg bilaðir þegar kemur að því en það er ekki alltaf raunhæft að fara inn í öll mót og ætla sér að vinna allt. Það er samt sem áður krafan og ef við ætlum að reyna að halda í við það þá verðum við að sinna þessu vel.“

Íslenska landsliðið í fótbolta skipað leikmönnum 19 ára og yngri …
Íslenska landsliðið í fótbolta skipað leikmönnum 19 ára og yngri fyrir leik gegn Grikklandi í sumar. Ljósmynd/Aleksandar Djorovic

Mikilvægt að passa að samskiptin séu ekki stuðandi

Jörundur viðurkennir að þetta sé ekki einfalt og segir flokkunina alls ekki auðvelda.

„Ég hef skilning á báðum hliðum. Þetta er ekki einfalt mál og allir hafa sínar skoðanir á þessu. Þegar þú ert kominn upp í 2. flokk þá ertu fljótlega kominn inn í meistaraflokksumhverfið ef þú ert nógu góður. Ég hef svo haft þá skoðun að það þarf að finna einhver önnur úrræði fyrir þau sem eru kannski ekki komin þangað til að halda þeim inni í félaginu.

Þetta geta orðið stjórnarmenn, dómarar, sjálfboðaliðar og svo framvegis. Það þarf að búa til umhverfi fyrir þessa krakka sem vilja kannski bara koma og spila fótbolta tvisvar, þrisvar eða fjórum sinnum í viku. Það þarf að vera sveigjanleiki fyrir þessa hópa því það eru ekki allir afreks og það vilja ekki allir vera afreks,“ segir hann.

„Þá komum við aftur að þessu með þjónustuna við samfélagið. Sveitarfélögin skaffa aðstöðuna og fara þá fram á það á móti að allir fái tækifæri. Það þýðir samt ekki að þú getir ekki verið með afrekshópa að mínu mati.

Þetta snýst svolítið um það hvernig þú kynnir hlutina fyrir foreldrahópnum og hvernig þú ræðir við leikmennina. Ef þú ert með einn hóp sem spilar þennan dag þá þarftu líka að geta sagt að um næstu helgi muni hinir spila. Það er mikilvægt að passa að samskiptin við hlutaðeigandi séu ekki stuðandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert