Caroline Seger, fyrirliði sænska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, hefur leikið sinn síðasta landsleik en þetta tilkynnti hún i viðtali á heimasíðu sænska knattspyrnusambandsins.
Seger hefur verið í stóru hlutverki í liði Svía um árabil og er langleikjahæst allra með landsliðinu en hún spilaði 240 landsleiki á 18 árum. Þá er hún sú níunda markahæsta í sögu landsliðsins með 32 mörk.
Með landsliðinu hefur hún tvívegis fengið silfurverðlaun á Ólympíuleikjum, í Ríó 2016 og Tókyó 2021, og tvívegis bronsverðlaun á heimsmeistaramótinu, árin 2011 og 2019. Hún var valin í heimsliðið sem einn af 11 bestu leikmönnum HM árið 2011 og einnig í úrvalslið EM 2013.
Seger, sem er 38 ára gömul, hefur leikið með Rosengård frá 2017 en árin þar á undan lék hún með frönsku stórliðunum Lyon og París SG. Hún lék einnig um skeið í Bandaríkjunum með Philadelphia Independence og Western New York Flash.