Sex íslensk verðlaun í Eistlandi

Vala Dís Cicero fór mikinn í Eistlandi.
Vala Dís Cicero fór mikinn í Eistlandi. Ljósmynd/Sundsamband Íslands

Ísland vann til tvennra gullverðlauna, einna silfurverðlauna og þrennra bronsverðlauna á Norðurlandameistaramótinu í sundi sem fram fór í Tartu í Eistlandi um helgina.

Vala Dís Cicero varð Norðurlandameistari í 200 metra skriðsundi á laugardaginn en Vala er einungis 15 ára. Hún kom í mark á tímanum 2:00,66 mínútum og þá varð hún þriðja í 100 metra skriðsundi.

Þá kom Guðmundur Leó Rafnsson fyrstur í mark í 200 metra baksundi unglinga og hann varð annar í 100 metra baksundi. Katja Lilja Andryisdóttir var þriðja í 800 metra skriðsundi og í 400 metra skriðsundi.

Þá fékk boðsundssveit Íslands í 4x100 metra skriðsundi einnig bronsverðlaun en þær Vala Dís Cicero, Guðbjörg Bjartey Guðmundsdóttir, Birgitta Ingólfsdóttir og Eva Margrét Falsdóttir skipuðu boðsundsveit Íslands. Alls tóku 22 sundmenn frá Íslandi þátt á mótinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert