Nálægt því að bæta fjórtán ára Íslandsmet

Snæfríður Sól Jórunnardóttir og Jóhanna Elín Guðmundsdóttir syntu báðar í …
Snæfríður Sól Jórunnardóttir og Jóhanna Elín Guðmundsdóttir syntu báðar í 50m skriðsundi í morgun. Ljósmynd/Sundsamband Íslands

Snæfríður Sól Jórunnardóttir var nálægt því að bæta fjórtán ára gamalt Íslandsmet í 50 m skriðsundi á Evrópumeistaramótinu í 25 metra laug í Búkarest í Rúmeníu í morgun.

Snæfríður Sól kom í mark á tímanum 24,99 sekúndum og bætti hún tíma sinn um hálfa sekúndu í greininni. Hún var 5/100 úr sekúndu frá Íslandsmeti Ragnheiðar Ragnarsdóttir sem hún setti árið 2009, 24,94 sekúndur.

Snæfríður Sól hafnaði í 25. sæti í greininni og Jóhanna Elín Guðmundsdóttir hafnaði í 40. sæti af 54 keppendum en hún kom í mark á 25,32 sekúndum sem er hennar besti tími á árinu.

Þær synda báðar aftur á fimmtudaginn í 100 m skriðsundi, Jóhanna syndir síðan aftur á föstudaginn í 100 m flugsundi og síðan syndir Snæfríður sína aðalgrein, 200 m skriðsund, á laugardaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert