Anton Sveinn nældi í silfur á EM

Anton Sveinn McKee í lauginni í Otopeni.
Anton Sveinn McKee í lauginni í Otopeni. Ljósmynd/Aleksandar Djorovic

Anton Sveinn McKee nældi í silfurverðlaun í 200 metra bringusundi á Evrópumeistaramótinu í 25 metra laug í Otopeni í Rúmeníu en úrslitasundinu lauk rétt í þessu. Anton synti á langbesta tímanum sínum í ár eða á 2:02,74.

Anton var þriðji eftir fyrsta snúning. Hann bætti þá í og var annar eftir næstu snúninga og á tímabili leiddi hann sundið þegar það var langt komið. Hann var þó annar eftir síðasta snúninginn og kom svo annar í mark á þessum glæsilega tíma.

Caspar Corbeau frá Hollandi varð Evrópumeistari á 2:02,41 mínútum eftir harðan slag við Anton um gullverðlaunin, þannig að aðeins 33/100 úr sekúndu skildu þá  að. 

Arrno Kamminga frá Hollandi varð síðan þriðji á 2:03,32 mínútum og svo var nokkuð í fjórða mann sem var Erik Persson frá Svíþjóð á 2:04,95 mínútum.

Anton Sveinn er fyrstur íslenskra karla til að komast á pall á Evrópumeistaramóti í 25 metra laug síðan Örn Arnarson gerði það í kringum síðustu aldamót. Eygló Ósk Gústafsdóttir nældi í tvenn bronsverðlaun í baksundi á EM í 25 metra laug árið 2015.

Þess má geta að Hrafnhildur Lúthersdóttir fékk síðan tvisvar silfur á EM í 50 metra laug árið 2016. 

Örn var Evrópumeistari í 100 og 200 metra baksundi árin 1998 og 1999. Hann vann alls 6 Evrópumeistaratitla milli 1998 og 2002 í 25 metra laug.

Örn er jafnframt eini Íslendingurinn sem unnið hefur til verðlauna á HM (50 metra laug) og gerði það í Japan árið 2001. Fyrr á þessu ári náði Anton þeim magnaða árangri að komast í úrslitasundið á HM (50 metra laug) í Búdapest og hafnaði í 7. sæti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert