Lucie Stefaniková hafnaði í 6. sæti í -76 kg flokki á Evrópumeistaramótinu í klassískum kraftlyftingum sem fram fer í Tartu í Eistlandi.
Lucie lyfti 195 kg í hnébeygju, 110 kg í bekkpressu og 210 kg í réttstöðulyftu – 515 kg samanlagt.
Lucie, sem setti Evrópumet í hnébeygju á heimsmeistaramótinu í Suður-Afríku á síðasta ári, var nokkuð frá sínu besta í greininni en jafnaði sinn besta árangur í bekkpressu. Fyrstu tvær réttstöðulyftur hennar voru ógildar en sú síðasta gild og skilaði lyftan henni 6. sætinu samanlagt.
Lucie keppti í B–riðli og þurfti því að bíða eftir niðurstöðu úr A-riðli til að sjá hvort árangur hennar dygði til verðlauna. Hún var hársbreidd frá því að vinna til bronsverðlauna í hnébeygju þar sem hún náði 4. sætinu.
Sophia Ellis frá Bretlandi sigraði í flokknum – lyfti 548 kg samanlagt.