Vignir Vatnar Stefánsson sigraði Friðriksmót Landsbankans í dag og er því nýr Íslandsmeistari í hraðskák. Hann hlaut 12½ vinning af 13 mögulegum, sem er met.
Vignir er núna því bæði Íslandsmeistari í skák og hraðskák. Hann gæti náð þrennunni ef hann vinnur Íslandsmótið í atskák sem fram fer á Selfossi þann 30. desember.
Í tilkynningu frá Skáksambandi Íslands segir að aldrei hafi mótið unnist með víðlíka vinningafjölda og með jafnmiklum yfirburðum. Aðeins einn hafi náði jafntefli við kappann.
Jón Viktor Gunnarsson hafnaði í öðru sæti með 10 vinninga. Björn Þorfinnsson og Hilmar Freyr Heimisson deildu þriðja og fjórða sæti með 9½ vinning. Helgi Ólafsson og Helgi Áss Grétarsson höfnuðu í 5.-6. sæti með 9 vinninga.
Mótið var haldið í 20. skipti í dag, en í fyrsta skipti í nýjum höfuðstöðvum Landsbankans. Sex stórmeistarar tóku þátt en alls tóku 90 keppendur þátt.