Anton ætlar ekki á HM

Anton Sveinn McKee, Caspar Corbeau og Arno Kamminga á verðlaunapallinum …
Anton Sveinn McKee, Caspar Corbeau og Arno Kamminga á verðlaunapallinum í Otopeni í gær. AFP/Daniel Mihailescu

Anton Sveinn McKee, silfurverðlaunahafinn í 200 metra bringusundi á Evrópumótinu í 25 metra laug í gær, ætlar að sleppa heimsmeistaramótinu í sundi sem fer fram í Katar í febrúar.

Anton ætlar sér að einbeita sér að undirbúningi sínum fyrir Ólympíuleikana í París sem fram fara í ágúst og sagði við mbl.is í dag að það hentaði sér betur að æfa vel í febrúar en að keppa á HM.

„Ég tek mér 24 tíma í að vera uppi í skýjunum og njóta aðeins eftir að hafa náð þessum árangri hér í Rúmeníu en svo koma lappirnar aftur niður á jörðina og undirbúningstímabilið heldur áfram. Ég keppi í bikarkeppninni um næstu helgi, tek mér síðan viku í jólafrí og svo er það út í laug á fullu.

Ólympíuleikarnir í París eru stóra markmiðið og þar reyni ég að ná draumaárangrinum, og vonast eftir því að ná út því sem ég veit að býr innra með mér,“ sagði Anton Sveinn við mbl.is í dag.

Nýti tímann í gæðaæfingar

Anton mun æfa mikið á Íslandi í aðdraganda Ólympíuleikanna. „Ég bý enn í Bandaríkjunum og verð með grunnæfingarnar þar en í rosalega mikilli samvinnu við Eyleif Jóhannesson landsliðsþjálfara. Ég verð síðan mikið heima á Íslandi og keppi í Evrópu.

Ég ætla að sleppa HM í febrúar, ætla frekar að nýta þann tíma í að ná gæðaæfingum, og svo keppi ég á Íslandsmótinu og sænska meistaramótinu í apríl til að ná upp góðri keppnistilfinningu. Síðan verða einhver mót í aðdraganda leikanna,“ sagði Anton Sveinn McKee sem náði í silfurverðlaunin í gær með glæsilegu úrslitasundi þar sem hann barðist við Caspar Corbeau og Arno Kamminga frá Hollandi um Evrópumeistaratitilinn og varð aðeins 33/100 úr sekúndu á eftir Corbeau.

Þeir ýta manni stöðugt lengra

„Við þekkjumst mjög vel og ég hef keppt margoft við Kamminga undanfarin fjögur ár. Caspar æfði lengi í Bandaríkjunum þegar hann var í háskóla þar og nú í Hollandi. Þetta eru góðir vinir og það er alltaf gaman að keppa á móti þeim. Þeir ýta manni stöðugt lengra og það var skemmtilegt að ná að vinna annan þeirra,“ sagði Anton, aðspurður um keppinautana tvo í úrslitasundinu en Kamminga hlaut silfurverðlaunin í greininni á síðustu Ólympíuleikum og hefur tvisvar orðið Evrópumeistari í 25 metra laug.

Ítarlegra viðtal við Anton um frammistöðuna á Evrópumótinu í Rúmeníu verður í Morgunblaðinu í fyrramálið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert