Snæfríður sjöunda á Evrópumótinu

Snæfríður Sól Jórunnardóttir í lauginni í Otopeni.
Snæfríður Sól Jórunnardóttir í lauginni í Otopeni. Ljósmynd/Aleksandar Djorovic

Snæfríður Sól Jórunnardóttir hafnaði í sjöunda sæti í 200 metra skriðsundi á Evrópumótinu í 25 metra laug í Otopeni í Rúmeníu en úrslitasundinu í greininni var að ljúka.

Snæfríður komst í úrslitin í gær með því setja Íslandsmet í undanúrslitunum, 1:54,23 mínúta, en hún var þá með fimmta besta tímann.

Hún synti úrslitasundið á 1:55,25 mínútu, aðeins hægar en í undanúrslitunum en eftir sem áður er árangurinn góður og Ísland átti því tvo keppendur í hópi sjö bestu í sínum greinum á þessu Evrópumóti.

Freya Anderson frá Bretlandi varð Evrópumeistari en hún synti á 1:52,16 mínútu. Barbora Seemanova frá Tékklandi varð önnur á 1:52,66 mínútu og bronsið fékk Freya Colbert frá Bretlandi á 1:54,07 mínútum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert