„Þetta er eiginlega ólýsanlegt og maður þarf að klípa sig í handlegginn. Ég trúi því varla enn að þetta hafi gerst, ég var búinn að bíða svo lengi eftir þessu. Einhvern tíma hefði maður ekki búist við því að vera 29 ára á verðlaunapalli á stórmóti í fyrsta sinn,“ sagði Anton Sveinn McKee við Morgunblaðið í gær.
Á laugardaginn náði hann þeim glæsilega árangri að hljóta silfurverðlaunin í 200 metra bringusundi á Evrópumótinu í 25 metra laug í Otopeni í Rúmeníu og var aðeins 33/100 úr sekúndu á eftir Caspar Corbeau frá Hollandi sem hreppti Evrópumeistaratitilinn eftir magnaða baráttu. Þeir syntu á 2:02,41 og 2:02,74 sekúndum en Arno Kamminga frá Hollandi, silfurverðlaunahafinn á síðustu Ólympíuleikum, varð að sætta sig við bronsið á 2:03,32 mínútum.
Anton sagðist hafa haft góða tilfinningu fyrir sundinu frá byrjun. „Ég fann strax að ég náði mínum hraða án þess að leggja í það of mikla ákefð. Þar með vissi ég að ég væri með nóg á tanknum fyrir seinni helminginn af sundinu og þetta myndi allt smella. Málið er að því oftar sem maður nær að synda sitt sund, eftir sínum áherslum, verður góður árangur niðurstaðan, frekar en að þetta sé öfugt og maður þurfi að gera eitthvað fáránlegt til að ná árangri. Einbeitingin var alltaf á næstu 25 metrana, eða bara á næsta tak.“
Anton sagði að þeir Eyleifur Jóhannesson landsliðsþjálfari hefðu skipulagt úrslitasundið vel.
Viðtalið í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag