Laug í tíu ár að fjölmiðlum

Sergio Agüero lék í tíu ár með Manchester City.
Sergio Agüero lék í tíu ár með Manchester City. AFP

Knattspyrnumaðurinn fyrrverandi Sergio Agüero lék með Manchester City í ensku úrvalsdeildinni í tíu ár, frá 2011 til 2021, en mætti engu að síður aldrei í viðtöl.

Agüero, sem er 35 ára gamall, lagði skóna á hilluna fyrir tveimur árum vegna hjartagalla en hann er markahæsti leikmaður í sögu City og varð sex sinnum Englandsmeistari með liðinu.

Micah Richards, fyrrverandi samherji hans hjá City, greindi frá því á dögunum að Agüero hefði logið því að fjölmiðlamönnum á Englandi að hann talaði ekki ensku og slapp þar af leiðandi alltaf við það að mæta í viðtöl.

Frábær í ensku

„Agüero laug því að hann kynni ekki ensku,“ sagði Richards í hlaðvarpsþættinum The Rest Is Football.

„Hann var frábær í ensku og hann var með öll helstu slanguryrðin á hreinu. Hann var með fótboltamálið upp á tíu líka.

Það er tvennt ólíkt að ræða við félagana og mæta svo í viðtal en hann notaði þetta spil alltaf, að hann kynni ekki ensku, og hann komst upp með það,“ bætti Richards við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert