Ætlar að vinna til verðlauna

Snorri Dagur Einarsson náði frábærum árangri á EM.
Snorri Dagur Einarsson náði frábærum árangri á EM. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég átti alls ekki von á þessum móttökum og þetta kom mjög skemmtilega á óvart,“ sagði sundkappinn Snorri Dagur Einarsson í samtali við Morgunblaðið í íþróttamiðstöðinni í Laugardal í gær en um 50 manns komu saman í Laugardalnum í gær til þess að taka á móti og hylla íslenska hópinn fyrir frammistöðuna í Rúmeníu á Evrópumeistaramótinu í 25 metra laug sem fram fór í Otopeni í Rúmeníu og lauk á sunnudaginn.

Snorri Dagur, sem er einungis 18 ára gamall, var á meðal keppenda á mótinu en þetta var hans fyrsta stórmót í fullorðinsflokki. Hann hafnaði í 16. sæti í 100 metra bringusundi á mótinu og setti um leið unglingamet í greininni þegar hann synti á 58,57 sekúndum. Þá hafnaði hann í 13. sæti í 50 metra bringusundi í Rúmeníu.

„Þetta er stærsta mót sem ég hef upplifað á ferlinum og ég átti satt best að segja ekki von á því að þetta væri jafn stórt og raun bar vitni. Ég mætti vel undirbúinn til leiks og æfingarnar voru mun þyngri, í aðdraganda mótsins, en gengur og gerist. Það var lítil hvíld og markmiðið var að toppa í Rúmeníu og það gekk í rauninni bara eftir,“ sagði Snorri Dagur.

Eins og áður sagði náði Snorri Dagur frábærum árangri á sínu fyrsta stórmóti.

„Mér leið mjög vel í vatninu og það gekk allt upp ef svo má segja. Markmiðið fyrir mótið var að komast áfram úr undanrásunum í undanúrslitin í 50 metra bringusundi en ég átti ekki alveg von á því að komast í undanúrslitin í 100 metra bringusundinu en það gekk eftir líka sem var mjög ánægjulegt.“

Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert