Ísland hefur Ólympíudrauminn á sigri

Íslenska landsliðið fagnar marki í kvöld.
Íslenska landsliðið fagnar marki í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ísland vann nokkuð sannfærandi sinn fyrsta leik í undan­keppn­inni í ís­hokkí karla fyr­ir Vetr­arólymp­íu­leik­ana 2026, gegn Suður-Afr­íku, 9:0, í Skauta­höll­inni í Laug­ar­dal í kvöld.

Um einstefnu var að ræða frá fyrstu mínútu en íslenska liðið var með yfirburði allan leikinn. 

Unnar Rúnarsson kom íslenska liðinu yfir á fyrstu mínútu leiksins með góðu marki eftir sendingu frá Bjarka Jóhannessyni. Hákon Magnússon bætti við öðru marki Íslands á sjöttu mínútu eftir sendingu frá Jóhanni Leifssyni. 

Gunnar Arason bætti svo við þriðja marki Íslands á 15. mínútu en Andri Mikaelsson bætti við fjórða á 26. mínútu eftir sendingu frá Hákoni Magnússyni. 

Fimmta mark Íslands skoraði Níels Hafsteinsson á 28. mínútu eftir sendingu frá Una Blöndal. Ormur Jónsson bætti við því sjötta á 40. mínútu eftir sendingu frá Unnari Rúnarssyni.

Sjöunda markinu bætti Bjarki Jóhannesson við á 53. mínútu en áttunda markið skoraði Viggó Hlynsson á 59. mínútu. Níels Hafsteinsson skoraði svo níunda og síðasta mark Íslands á 60. mínútu leiksins. 

Ísland næst líklegast

Fyr­ir fram á Eist­land að vera sterk­asta liðið en það er í 28. sæti heimslista Alþjóðaís­hokkí­s­am­bands­ins. Ísland er í 34. sæti, Búlga­ría í 36. og Suður-Afr­íka í 49. sæti.

Þetta er annað stig undan­keppn­inn­ar en þar hef­ur Ísland keppni. Alls þarf að kom­ast í gegn­um fjög­ur stig undan­keppn­inn­ar til að vinna sér sæti á leik­un­um sem fara fram í Mílanó og Cort­ina á Ítal­íu í fe­brú­ar 2026.

Ísland mætir næst Eistlandi á sunnudaginn kemur.

Eistland burstaði Búlgaríu

Þá fór Eistland afar illa með Búlgaríu í riðli Íslands fyrr í dag. 

Eistland vann leikinn 21:0 en staða var 3:0 eftir fyrsta leikhluta. Eftir hann fór eistneska liðið á kostum og skoraði átta mörk í öðrum leikhluta og svo tíu í þriðja og vann að lokum öruggan sigur. 

Hjá Eistlandi skoraði Vadim Vasjonkin flest mörk eða fjögur stykki. Rasmus Kiik skoraði þá þrjú. 

Hægt var að horfa á leik­inn í beinu streymi hér fyr­ir neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert