Fordæmalaus áhugi á EM

Mikil stemning hefur verið á leikjum Íslands á síðustu mótum …
Mikil stemning hefur verið á leikjum Íslands á síðustu mótum en í Svíþjóð í janúar voru um 1.500 Íslendingar og aðeins færri í Ungverjalandi árið áður. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fordæmalaus áhugi er á leikjum íslenska karlalandsliðsins í handknattleik ef mið er tekið af miðasölu á leiki Íslands í riðlakeppni EM í Þýskalandi í janúar. Ísland leikur í München og fáir miðar eru eftir að sögn mótshaldara en miðasalan fer fram á vef keppninnar.

„Við höfum ekki kynnst annarri eins eftirspurn eftir miðum og það er nánast orðið uppselt á leiki Íslands í riðlakeppninni,“ segir Róbert Geir Gíslason framkvæmdastjóri HSÍ.

Langmesti fjöldi sem fylgt hefur landsliðinu

„Mótshaldarar segja okkur að þau búist við um fjögur þúsund Íslendingum en sjálfur hef ég ekki aðgang að sölutölum. Þeir segja að seldir hafi verið um fjögur þúsund miðar fyrir stuðningsmenn Íslands á leikina í München. Þetta held ég að sé langmesti fjöldi sem hefur fylgt okkur eftir hingað til. Mikil stemning hefur verið á leikjum Íslands á síðustu mótum en í Svíþjóð í janúar voru um 1.500 Íslendingar og aðeins færri í Ungverjalandi árið áður,“ rifjar Róbert upp en segir að tala eins og fjögur þúsund sé óþekkt í þessu samhengi.

Áhuginn hefur stigmagnast

Komist Ísland í milliriðil verður leikið í Köln. Róbert telur að það hjálpi mikið til þegar Ísland leikur í skemmtilegum borgum og áætlunarflug frá Íslandi til München skipti máli.

„Nú vill svo til að EM er haldið í Þýskalandi, sem er mekka handboltans. Þegar Þjóðverjarnir hafa haldið þessar keppnir hefur verið mjög vel að því staðið. Þýskaland er viðkomustaður sem Íslendingar þekkja vel. Janúarferð til München hljómar ekkert illa. Við erum einnig með mjög spennandi lið í höndunum. Mér hefur fundist áhuginn stigmagnast að undanförnu og þeir sem hafa fylgt liðinu vita að það er upplifun að fara á stórmót í handbolta.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka