Blaksamband Íslands hefur skráð A-landslið karla og kvenna til þátttöku í Silver league, sem er mótaröð á vegum Blaksambands Evrópu, á næsta ári.
Alls eru 24 Evrópuþjóðir og 38 landslið þeirra skráð til keppni. Hefur þeim verið raðað niður í Golden og Silver league eftir styrkleika.
Í tilkynningu frá Blaksambandi Íslands segir að með þessu keppnisfyrirkomulagi geti þjóðir tekið þátt á jafnari grundvelli í alþjóðlegri keppni.
„Mótafyrirkomulagi keppninnar hefur verið breytt til þess að koma betur til móts við keppnisþjóðir og mun því vera spilað í umferðum sem dreift verður yfir allt að fjórar helgar. Með þessari aðlögun fá þátttökulið tækifæri til þess að halda mót og spila þar tvo leiki yfir helgi og kynna landslið sín og verkefni á heimavelli,“ sagði í tilkynningunni.
Sigurvegarar í Silver league fá 65.000 evrur í verðlaunafé og tryggja sér þátttökurétt í Golden league að ári.
Um frumraun íslensku landsliðanna verður að ræða í þessari mótaröð og lítur Blaksamband Íslands til þess að þau taki þátt í henni næstu þrjú árin.
Íslensku landsliðin tóku síðast þátt í Evrópukeppni smáþjóða 2023. Þar fór kvennalandsliðið með sigur af hólmi og varð Evrópumeistari smáþjóða en karlalandsliðið hafnaði í þriðja sæti.