„Ég komst á pall á heimsleikunum árið 2017 en þá voru einmitt margir búnir að afskrifa mig og töluðu um að Katrín Tanja Davíðsdóttir og Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir væru hinar nýju Annie,“ sagði crossfitkonan Annie Mist Þórisdóttir í Dagmálum.
Annie Mist, sem er 34 ára gömul, hefur tvívegis fagnað sigri á heimsleikunum en hún hefur verið ein fremsta crossfitkona heims undanfarin ár og á von á sínu öðru barni næsta vor.
Íslensku crossfitkonurnar hafa verið á meðal þeirra fremstu í heiminum undanfarin ár og þrátt fyrir að samkeppnin þeirra á milli sé mikil þá eru þær allar góðar vinkonur líka.
„Mér fannst svo geðveikt að fá þessar sterku íslensku stelpur inn á heimsleikana, þetta var draumurinn,“ sagði Annie Mist.
„Að ná að toga svona margar stelpur inn í þetta og sýna heiminum hversu sterkar dæturnar eru. Íslenskar konur eru ógeðslegar sterkar og við getum allt sem við ætlum okkur,“ sagði Annie Mist meðal annars.