Gáfumst ekki upp en þetta var brekka

Jóhann Már fangar marki gegn Búlgaríu í síðasta leik.
Jóhann Már fangar marki gegn Búlgaríu í síðasta leik. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það var vitað fyrirfram að þetta yrði erfiður leikur,“ sagði Jóhann Már Leifsson, landsliðsfyrirliði í íshokkí, í samtali við mbl.is eftir tap, 6:0, gegn Eistlandi í úrslitaleik um sæti í næsta stigi í undankeppni Ólympíuleikanna í Skautahöllinni í Laugardal í kvöld.

Eistland var fyrir leikinn talið nokkuð sterkara lið en Ísland og koma úrslitin því ekki endilega á óvart. Ekki bætti úr skák að Eistarnir komust yfir eftir tæplega mínútu.

„Þeir eru nokkrum þrepum fyrir ofan okkur, en það er alltaf skemmtilegt að spila svona leiki. Það er alltaf erfitt að fá á sig mark snemma. Við gáfumst aldrei upp en þetta var brekka.“

„Þetta er fín æfing fyrir okkur fyrir heimsmeistaramótið í apríl. Auðvitað vildum við vinna alla þrjá leikina, en þetta var erfitt í kvöld,“ sagði hann.

Það var hart barist á svellinu í kvöld.
Það var hart barist á svellinu í kvöld. Ljósmynd/Hafsteinn Snær Þorsteinsson

Jóhann er vanur því að ferðast víða með landsliðinu á ári hverju. Hann sagði það öðruvísi að spila svona leiki á heimavelli.

„Það er alltaf gaman að spila fyrir framan þína eigin þjóð. Þetta er aðeins öðruvísi þegar maður er heima. Hér eru menn að skjótast heim til sín en þegar maður er úti er hópurinn mjög þéttur og alltaf saman,“ sagði hann.

Næst á dagskrá hjá íslenska liðinu er A-riðill í 2. deild heimsmeistaramótsins í Belgrad í Serbíu í apríl á næsta ári. Íslenska liðið átti að falla niður í B-riðil, þar sem liðið endaði í neðsta sæti síðastliðinn apríl, en þar sem Georgía hætti við keppni hélt íslenska liðið sæti sínu í A-riðlinum, eftir að hafa unnið B-riðilinn árið 2022

„Það verður erfitt að komast í þetta lið í apríl. Það verður hörð keppni um sæti ef allir gefa kost á sér. Það má segja að þetta sé allt á réttri leið,“ sagði Jóhann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka