Hinn mesti sigurdagur Íslands

Karl Guðmundsson, fyrirliði, Sæmundur Gíslason og Þórður Þórðarson halda á …
Karl Guðmundsson, fyrirliði, Sæmundur Gíslason og Þórður Þórðarson halda á Ríkharði Jónssyni eftir að hann skoraði mörkin fjögur í sigrinum á Svíum. Ólafur K. Magnússon

Föstudagurinn 29. júní 1951 er einhver merkasti dagurinn í íþróttasögu Íslands. Þess bar glögglega merki á útsíðum Morgunblaðsins daginn eftir, laugardaginn 30. júní, en þá voru aðalfréttir blaðsins á forsíðu og baksíðu helgaðar stórsigrunum sem hið sjö ára gamla lýðveldi fagnaði deginum áður.

Forsíða Morgunblaðsins 30. júní 1951
Forsíða Morgunblaðsins 30. júní 1951


Á forsíðu blaðsins var fimmdálka fyrirsögn efst: „Ísland vann bæði Noreg og Danmörku í Oslo.“ Og fyrir neðan stóð: „Það er frábært afrek íþróttamanna okkar.“ Myndir af Torfa Bryngeirssyni stangarstökkvara og Guðmundi Lárussyni hlaupara prýða forsíðuna.

Á baksíðunni var líka splæst í fimmdálk: Mjög óvænt úrslit – Ísland vann Svíþjóð 4:3. Fyrir neðan stóð: Ríkarður Jónsson áberandi besti leikmaður á vellinum. Hann skoraði fjögur mörk. Þar er svo fræg mynd sem Ólafur K. Magnússon tók eftir leikinn þar sem Karl Guðmundsson, Sæmundur Gíslason og Þórður Þórðarson báru Ríkharð á gullstóli af velli í leikslok.

Mjög sjerstætt

Á forsíðunni var jafnframt sérstakur rammi með fyrirsögninni: „Mesti sigur íslenskra íþróttamanna: Unnu þrjá landsleiki sama dag.“

Baksíða Morgunblaðsins 30. júní 1951.
Baksíða Morgunblaðsins 30. júní 1951.


Síðan segir: „Dagurinn í gær, föstudagurinn 29. júní, er mesti sigurdagur, sem íslenskir íþróttamenn nokkru sinni hafa litið: Þeir unnu þá þrjá landsleiki. Tæpum þremur klukkustundum eftir að frjálsíþróttamenn okkar höfðu sigrað bæði Dani og Norðmenn í Oslo, hafði knattspyrnumönnunum tekist það ótrúlega, að vinna Svía hjer í Reykjavík.

Torfi Bryngeirsson og Gunnar Huseby voru meðal bestu frjálsíþróttamanna Evrópu.
Torfi Bryngeirsson og Gunnar Huseby voru meðal bestu frjálsíþróttamanna Evrópu.


Það er mjög sjerstætt að slíkt komi fyrir og þætti stórviðburður meðal milljónaþjóða – hvað þá hjer hjá okkur. Íslenska þjóðin samfagnar íþróttamönnum sínum og þakkar þeim unnin afrek.“

Þetta voru dúndurmörk

Árni Njálsson, sem síðar var fyrirliði Vals um árabil og landsliðsmaður frá 1956 til 1968 þar sem hann var einnig fyrirliði í síðustu leikjum sínum, var á Melavellinum þetta eftirminnilega föstudagskvöld.

Árni Njálsson var 15 ára áhorfandi á leiknum 1951 en …
Árni Njálsson var 15 ára áhorfandi á leiknum 1951 en varð síðar fyrirliði landsliðsins.

„Ég var á leiknum sem áhorfandi, nýorðinn 15 ára, og man vel eftir stemningunni á Melavellinum. Þarna voru fleiri þúsund áhorfendur og troðfullt á vellinum. Fólk kom gangandi út á völl í gegnum Hljómskálagarðinn, það var ekki mikið af bílum á þessum tíma, og krakkar sátu inni á hliðarbrautinni og við grindverkið,“ sagði Árni þegar Morgunblaðið fékk hann til að rifja upp þennan merkisviðburð.

Greinin í heild sinni er í laugardagsblaði Morgunblaðsins og er hluti af umfjöllun um liðna viðburði í tilefni af 110 ára afmæli blaðsins.

Karl Guðmundsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, og Urban Larsson, fyrirliði sænska …
Karl Guðmundsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, og Urban Larsson, fyrirliði sænska liðsins, heilsast fyrir leikinn á Melavellinum og skiptast á gjöfum. Ólafur K. Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert