Mennta- og barnamálaráðuneytið, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands ,ÍSÍ, og Ungmennafélag Íslands, UMFÍ, undirrituðu í dag tímamótasamning um eflingu íþróttastarfs á landsvísu.
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ, og Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, undirrituðu samninginn í höfuðstöðvum ÍSÍ og tekur hann gildi nú um áramótin.
Mennta- og barnamálaráðuneytið setur alls 400 milljónir króna í verkefnið næstu tvö árin, 200 á hvoru ári.
Samningurinn felur í sér að íþróttahreyfingin mun með stuðningi stjórnvalda koma á fót átta svæðisskrifstofum, og munu skrifstofurnar þjónusta öll 25 íþróttahéruð landsins, ná til tæplega 500 íþrótta- og ungmennafélaga um allt land og allra iðkenda á öllum aldri.
Á hverri skrifstofu verða tveir starfsmenn, alls 16. Íþróttahreyfingin mun fjármagna annan starfsmanninn og ríkið hinn starfsmanninn á hverri skrifstofu.