Mennta- og barnamálaráðherra segir nýjan samning mennta- og barnamálaráðuneytisins, ÍSÍ og UMFÍ um eflingu íþróttastarfs á landsvísu til þess fallinn að jafna tækifæri iðkenda íþrótta um allt land.
Mennta- og barnamálaráðuneytið setur alls 400 milljónir króna í verkefnið næstu tvö árin, 200 á hvoru ári.
Samningurinn felur í sér að íþróttahreyfingin mun með stuðningi stjórnvalda koma á fót átta svæðisskrifstofum, og munu skrifstofurnar þjónusta öll 25 íþróttahéruð landsins, ná til tæplega 500 íþrótta- og ungmennafélaga um allt land og allra iðkenda á öllum aldri.
„Þetta hefur náttúrlega gríðarlega jákvæð áhrif út á land, þar sem eru kannski einmitt meiri áskoranir þegar kemur að því að byggja upp íþrótta- og tómstundastarf, til að mynda fyrir börn.
Og mikilvægi samspils þar við það sem við erum að gera í skólakerfinu og í farsæld barna. Ég sé fyrir mér að þessar nýju stöðvar muni geta unnið mjög þétt með þeirri vinnu,“ sagði Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra í samtali við mbl.is eftir undirritunina.
„Þar erum við nýlega búin að kynna endurskipulagningu á Menntamálastofnun, sem var samþykkt í þinginu á síðustu dögum þess, samhliða skólalöggjöf þar sem verið er að hugsa sérstök skólaþjónustusvæði á stærri einingum til þess að vinna með allra kræfustu málin.
Þarna á milli þarf að verða aukið samstarf og samvinna ef við ætlum að tryggja þessum börnum möguleika á því að taka þátt í íþróttastarfi eins og öðrum börnum,“ bætti hann við.
ÍSÍ og UMFÍ munu koma á fót svokölluðum Hvatasjóð þar sem 70 milljónir króna fyrir íþróttahéröð og –félög verða tileinkuð verkefnum sem tengjast jaðarsettum börnum.
„Hugsunin er síðan á þessum grunni að Hvatasjóður verði byggður upp og hluti af þessu fjármagni verði eyrnamerkt inn í slíkan sjóð.
Hann er hugsaður þannig að íþróttafélög, í samstarfi við skóla eða aðra aðila, sem vilja fara af stað með verkefni sem snúa að börnum í jaðarsettum hópum, með sérstakri áherslu á börn með fatlanir og börn með erlendan tungumála- og menningarbakgrunn, að það sé sérstakur sjóður og fjármagn fyrir þau sem hægt sé að sækja í,“ útskýrði Ásmundur Einar.
„Grunnurinn að þessu er sá að við höfum verið að tala um að styrkja tómstundir barna sérstaklega, umfram það sem sveitarfélög eru að gera. Við gerðum það í Covid-faraldrinum og tölfræðin sýndi okkur það að jafnvel þó við hefðum styrkt það sérstaklega þá náðum við ekki þessum jaðarsettu börnum.
Það þarf meiri handavinnu, samvinnu og samtal til þess að byggja upp íþróttir fyrir þessi börn og það er það sem þessi Hvatasjóður er hugsaður fyrir, til þess að aðstoða við slíkt.
Þangað geta íþróttafélög, sveitarfélög, skólar og aðrir aðilar sem hafa í hyggju að byggja upp einhvers konar verkefni, sem snúa sérstaklega að þessum börnum, sótt styrki,“ hélt hann áfram um Hvatasjóðinn.
Ein svæðisskrifstofan verður á höfuðborgarsvæðinu og stendur nú vinna yfir við að ákvarða hvar hinar sjö verða staðsettar.
„Það er núna vinna í gangi hjá hópi sem er að reyna að samræma þjónustusvæði barna. Við kynntum það í ríkisstjórn. Það er í gangi samtal sem íþróttahreyfingin, UMFÍ og ÍSÍ, Samband íslenskra sveitarfélaga og fleiri aðilar koma að, þar sem við erum að reyna að leita leiða til þess að láta svæðin vera sambærileg.
Þ.e.as. íþróttirnar, skólaþjónusta, farsæld barna og síðan æskulýðs- og tómstundastarf í heild sinni. Sú vinna er í gangi og vonandi verður komin lending í byrjun nýs árs. Ég held að það séu gríðarleg tækifæri fólgin í aukinni samvinnu á milli aðila á stærri svæðum.
Það er það sem við erum að byggja undir hér og hvetja til. Það er auðvitað tímamótaskref að UMFÍ og ÍSÍ séu að stíga þetta skref í átt til samstarfs með þessum hætti. Því fagna ég sérstaklega,“ sagði Ásmundur Einar að lokum.