Hlutirnir eru að gerast hratt

Lárus L. Blöndal, Ásmundur Einar Daðason og Jóhann Steinar Ingimundarson …
Lárus L. Blöndal, Ásmundur Einar Daðason og Jóhann Steinar Ingimundarson við undirskriftina í gær. mbl.is/Arnþór Birkisson

Það var lykil tilgangurinn og hugmyndin með þessari aðferðafræði sem verið er að vinna með,“ sagði Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, eftir að mennta- og barnamálaráðuneytið, ÍSÍ og UMFÍ undirrituðu samning til eflingar íþróttastarfs á landsvísu í gær.

Þar var hann spurður hvort samningurinn væri til þess fallinn að jafna hlut íþróttaiðkenda á landsvísu.

Mennta- og barna­málaráðuneytið set­ur alls 400 millj­ón­ir króna í verk­efnið næstu tvö árin, 200 á hvoru ári.

Hlutfallslega meira fjármagn út á land

Samn­ing­ur­inn fel­ur í sér að íþrótta­hreyf­ing­in mun með stuðningi stjórn­valda koma á fót átta svæðis­skrif­stof­um, og munu skrif­stof­urn­ar þjón­usta öll 25 íþrótta­héruð lands­ins, ná til tæp­lega 500 íþrótta- og ung­menna­fé­laga um allt land og allra iðkenda á öll­um aldri.

„Það eru átta svæðaskrifstofur, og þar af er bara ein hér á höfuðborgarsvæðinu, sem nær yfir megnið af höfuðborgarsvæðinu.

Það er verið að tryggja lágmarks fjármagn inn í hverja einustu svæðaskrifstofu þannig að með þessari aðferð er hlutfallslega verið að tryggja meira fjármagn út á land og tryggja að það sé verið að veita ákveðna tegund af þjónustu af sama krafti, hvar sem er á landinu,“ hélt Jóhann Steinar áfram.

Hvatasjóður í þróun

ÍSÍ og UMFÍ munu koma á fót svokölluðum Hvatasjóð þar sem 70 milljónir króna fyrir íþróttahéröð og –félög verða tileinkuð verkefnum sem tengjast jaðarsettum börnum.

„Hvatasjóðurinn er eitt af því sem er í þróun og það á að klára það fyrir febrúar eða marslok, að setja nákvæmlega markmiðin til um hann.

En þar á að ná fram ákveðnum þáttum sem snúa að þeim sem búa við fötlun, sem eru af erlendu bergi brotnir, og innleiðingu og inngildingu þeirra í starfið.

Hlutirnir eru að gerast það hratt að við erum að ná einhverjum ákveðnum ramma en eigum svo eftir að útfæra nákvæmu atriðin síðar. Það sem stendur upp úr er að það er búið að takast að fjármagna verkefnið,“ sagði hann.

Borðleggjandi að halda áfram

Samningurinn tekur gildi um áramótin og er til næstu tveggja ára.

Er vitað hvernig starfið verður fjármagnað í framhaldinu?

„Í raun og veru ekki. Þetta er kannski fyrsta skrefið sem við erum að ná núna og heyrir kannski upp á okkur að það náist árangur í þessu.

Okkar trú er að ef við náum að sýna það þá sé í sjálfu sér borðleggjandi að halda áfram og bæta svo í til framtíðar,“ sagði Jóhann Steinar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka