Már og Sonja best á árinu

Sonja Sigurðardóttir og Már Gunnarsson.
Sonja Sigurðardóttir og Már Gunnarsson. Ljósmynd/ÍF

Már Gunnarsson og Sonja Sigurðardóttir voru í dag útnefnd íþróttamaður og íþróttakona Íþróttasambands fatlaðra árið 2023. Þá hlaut Karen Ásta Friðjónsdóttir Hvataverðlaun ÍF sem veitt eru einstaklingum, félagasamtökum, stofnun, fyrirtæki eða öðrum aðilium sem á framsækinn hátt hafa unnið í þágu íþróttastarfs fatlaðra á árinu.

Kjörinu var lýst á Grand Hótel í dag við hátíðlega athöfn en þetta er í fjórða sinn sem Sonja er útnefnd Íþróttakona ársins og í þriðja sinn sem Már hlýtur nafnbótina. Bæði áttu þau magnaða frammistöðu á Heimsmeistaramóti IPC í sundi á þessu ári og halda þau bæði lágmörkum fyrir Paralympics sem fram fara í París 2024.

Náði lágmörkum fyrir Paralympics

Már Gunnarsson keppti á heimsmeistaramótinu í sundi sem fram fór í Manchester á árinu. Már er einn af fremstu baksundsmönnum heims og hafnaði í 6. sæti á mótinu. Már synti þá á tímanum 1:10.72 mín sem er steinsnar frá Íslandsmeti hans sem er 1.10.36 mín. og stendur því enn frá Paralympics í Tokyo 2021. Már er núna í árslok í 8. sæti heimslistans yfir bestu tíma ársins í 100m baksundi S11. Þetta er í þriðja sinn sem Már hlýtur nafnbótina Íþróttamaður ársins hjá Íþróttasambandi fatlaðra en hann var fyrst kjörinn árið 2019 og aftur árið 2021 í sögulegu kjöri þar sem hann og Róbert Ísak Jónsson hlutu báðir nafnbótina Íþróttamaður ársins fyrir árangur sinn í sundlauginni það árið.

Már hefur náð lágmörkum fyrir Paralympics í París 2024 en á Paralympics þýða lágmörk ekki það sama og að komast inn. Að svo stöddu hafa verðlaunahafar á síðasta heimsmeistaramóti eingöngu fengið keppnisrétt í París en í febrúarmánuði skýrist frekar hverjir hljóta boðið en þá er staða á heimslista og árangur m.a. tekið til skoðunar og sætum úthlutað.

Synti til úrslita í fjórum greinum

Sonja Sigurðardóttir synti til úrslita í fjórum greinum á heimsmeistaramótinu í sundi sem fram fór í Manchester og náði þar frábærum árangri þegar hún hafnaði í 5. sæti í 50m baksundi. Þá varð hún sjötta í 200m skriðsundi, sjöunda í 100m skriðsundi og sjöunda í 50m skriðsundi. Sonja er núna í árslok í 6. sæti heimslistans í 50m baksundi.

Þetta er í fjórða sinn sem Sonja hlýtur nafnbótina Íþróttakona ársins hjá Íþróttasambandi fatlaðra en það gerðist fyrst árið 2008. Hún vann tvö ár í röð eða líka 2009 og svo aftur 2016. Aðeins tvær íþróttakonur hafa hlotið nafnbótina oftar en það eru þær Kristín Rós Hákonardóttir og Thelma Björg Björnsdóttir báðar sundkonur.

Sonja setti alls 18 Íslandsmet á árinu en þetta árið keppti hún í flokki S3 þar sem hún fékk flokkun úr flokki S4 í S3.

Sonja hefur náð lágmörkum fyrir Paralympics í París 2024 en á Paralympics þýða lágmörk ekki það sama og að komast inn. Að svo stöddu hafa verðlaunahafar á síðasta heimsmeistaramóti eingöngu fengið keppnisrétt í París en í febrúarmánuði skýrist frekar hverjir hljóta boðið en þá er staða á heimslista og árangur m.a. tekið til skoðunar og sætum úthlutað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka