Nokkur þúsund börn sem fá ekki tækifæri

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ávinningurinn er sá að þarna er íþróttahreyfingin að hugsa sér að byggja upp öflugar starfsstöðvar, sem í samstarfi UMFÍ og ÍSÍ verða byggðar upp, og gefa aukinn slagkraft til þess að taka að sér aukin verkefni fyrir borgara landsins.“

Íþróttastarf eflt til muna

Þetta sagði Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, í samtali við mbl.is eftir að mennta- og barna­málaráðuneytið, Íþrótta- og Ólymp­íu­sam­band Íslands, ÍSÍ, og Ung­menna­fé­lag Íslands, UMFÍ, und­ir­rituðu í gær tíma­móta­samn­ing um efl­ingu íþrótt­a­starfs á landsvísu.

Mennta- og barna­málaráðuneytið set­ur alls 400 millj­ón­ir króna í verk­efnið næstu tvö árin, 200 á hvoru ári.

Samn­ing­ur­inn fel­ur í sér að íþrótta­hreyf­ing­in mun með stuðningi stjórn­valda koma á fót átta svæðis­skrif­stof­um, og munu skrif­stof­urn­ar þjón­usta öll 25 íþrótta­héruð lands­ins, ná til tæp­lega 500 íþrótta- og ung­menna­fé­laga um allt land og allra iðkenda á öll­um aldri.

Ná betur til jaðarsettra hópa

Á meðal lykiláherslna samningsins er að ná betur til barna sem tilheyra jaðarhópum, til að mynda þeirra sem glíma við fötlun, eru af erlendu bergi brotin og glíma við menningar- og tungumálaörðugleika.

„Hvort sem það tengist því að ná betur til barna og ungmenna sem hafa einhverja hluta vegna ekki getað stundað íþróttir, hvort sem það er vegna fötlunar, menningar- og tungumálaörðugleika, byggðamála.

Að það verði til öflugar einingar sem geti mætt því. Við erum samhliða því að setja fjármagn inn í sérstakan Hvatasjóð sem er hugsaður til þess að styðja við slík verkefni.

Nú eða þá að geta tekið að sér aukin verkefni þegar kemur að þjónustu eða öðrum lýðheilsumálum eins og hreyfingu, hreyfingu eldra fólks og svo framvegis,“ hélt Ásmundur Einar áfram.

Mikið forgangsmál hjá mér

„Eftir að þetta verkefni fór af stað og ég fann að þetta samtal var að fara í gang þá sjáum við strax mikil tækifæri fólgin í því að ná sérstaklega til barna sem eru í jaðarsettri stöðu.

Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ, Ásmundur Einar og Jóhann Steinar …
Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ, Ásmundur Einar og Jóhann Steinar Ingimundarson, framkvæmdastjóri UMFÍ, undirrita samninginn í gær. mbl.is/Arnþór Birkisson

Þess vegna erum við tilbúin að koma beint að þessu verkefni til þess að fara af stað í að ná til þessara barna. Þetta hefur verið forgangsmál hjá núverandi ríkisstjórn og mikið forgangsmál hjá mér að við náum auknum árangri í því.

Þess vegna erum við tilbúin að koma strax inn í þetta samstarf með þessum hætti. Að koma þessum öflugu einingum af stað til þess að ná fleiri börnum til þess að taka þátt í íþrótta- og tómstundastarfi,“ bætti hann við.

Aukinn slagkraftur með samstarfi UMFÍ og ÍSÍ

Spurður hvað yrði fólgið í starfi svæðisskrifstofanna átta sagði Ásmundur Einar:

„Það er kannski frekar íþróttahreyfingarinnar að svara fyrir það, hvernig hún sér fyrir sér að byggja  störfin upp. Ég held að það eitt að UMFÍ og ÍSÍ séu að slá saman í þessari starfsemi gefi auðvitað aukinn slagkraft.

Ég sé fyrir mér að þetta fjármagn sem við erum að setja inn í þetta muni nýtast til þess að byggja upp verkefni allt í kringum landið til þess að ná börnum og ungmennum í jaðarsettri stöðu í auknum mæli inn í íþróttir.

Við sjáum það í verkefni sem hefur verið í gangi núna í talsverðan tíma með samstarfi þriggja ráðuneyta og heitir „Allir með,“ að það eru nokkur þúsund börn sem ekki hafa tækifæri á þátttöku í íþróttum, meðal annars vegna fötlunar sinnar.

Við viljum aðstoða við að ná að byggja upp tómstunda- og íþróttastarf fyrir þessi börn og það eru mikil tækifæri í að gera það í þessu samstarfi sem ÍSÍ og UMFÍ eru að byggja upp hérna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka