„Ávinningurinn er sá að ná íþróttahreyfingunni meira í takt,“ sagði Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, eftir að mennta- og barnamálaráðuneytið, ÍSÍ og UMFÍ undirrituðu í gær samning til eflingar íþróttastarfs á landsvísu.
„Að við séum að ná skrefum sem við erum að taka saman, að við séum að ná að gera sambærilega hluti á landsvísu. Þetta er kannski fyrsta skrefið til að ná að kortleggja hvað hægt er að gera.
Við vonumst líka til þess að það sjáist að þetta sé að virka og þar með verði hægt að fjármagna þetta enn betur þannig að við getum orðið enn öflugri til lengri tíma,“ hélt Jóhann Steinar áfram í samtali við mbl.is.
Mennta- og barnamálaráðuneytið setur alls 400 milljónir króna í verkefnið næstu tvö árin, 200 á hvoru ári.
Samningurinn felur í sér að íþróttahreyfingin mun með stuðningi stjórnvalda koma á fót átta svæðisskrifstofum, og munu skrifstofurnar þjónusta öll 25 íþróttahéruð landsins, ná til tæplega 500 íþrótta- og ungmennafélaga um allt land og allra iðkenda á öllum aldri.
„Hugmyndin er sú að það séu tveir starfsmenn á átta mismunandi svæðaskrifstofum. Framlag ríkisins er sem sagt fyrir annan starfsmanninn og framlag íþróttahreyfingarinnar er fyrir hinn,“ útskýrði hann.
Spurður í hverju starf svæðisskrifstofanna verði fólgið sagði Jóhann Steinar:
„Það er svolítið í þróun núna af því að við viljum vinna þetta í sambandi við héröðin sem að hverju svæði koma.
En þetta er líka tvískipt að því leytinu til að þetta er annars vegar ríkisvaldið og hins vegar íþróttahreyfingin sjálf sem kemur með fjármuni í þetta.
Sá hluti sem kemur frá íþróttahreyfingunni ráðum við svolítið meira hvernig verður verkaskipt en lykilatriðið er að það verður gert í samráði við þá sem eru á svæðinu.“
Ein svæðisskrifstofan verður á höfuðborgarsvæðinu og stendur nú vinna yfir við að ákvarða hvar hinar sjö verða staðsettar.
„Að hluta til verður horft til hvernig Samtök íslenskra sveitarfélaga eru að vinna saman á landsvísu. Þetta verður aðeins aðlagað miðað þær þarfir sem íþróttahreyfingin hefur og það er líka verið að vinna þetta í samvinnu við íþróttahéröðin, eftir því hversu mikil samvinna er á milli þeirra.
Meginstefið hjá okkur er það að hlusta á hvað er að gerast á hverju svæði fyrir sig og hvað þarf að gera á hverju þeirra þannig að við náum fram sameiginlegum heildarhagsmunum,“ sagði Jóhann Steinar.