Valsmenn fjarlægja styttu af séra Friðriki

Stytta af séra Friðriki í miðbæ Reykjavíkur.
Stytta af séra Friðriki í miðbæ Reykjavíkur. mbl.is/Hákon

Aðalstjórn knattspyrnufélagsins Vals hefur ákveðið að fjarlægja styttuna af séra Friðriki Friðrikssyni sem stendur á lóð félagsins.

Ákvörðunin var tekin eftir þó nokkra umræðu og vinnu innan félagsins síðustu vikur, að því er segir í tilkynningu.

„Ljóst er á samtölum okkar og umfjöllun aðalstjórnar um þetta erfiða mál að séra Friðrik fór yfir velsæmismörk gagnvart drengjum og áreitti þá kynferðislega,” segir í tilkynningunni.

„Þó séra Friðrik hafi ekki starfað innan félagsins og við höfum engin dæmi þess að brot hafi átti sér stað er tengjast félaginu þá er saga Vals og séra Friðriks samofin og umræðan upp á síðkastið hefur skaðað félagið okkar,” segir þar einnig.

Fram kemur að með þessu sé félagið að senda skýr skilaboð út í samfélagið um að hegðun sem þessi sé fordæmd og að félagið vilji ekki tengjast slíku með nokkrum hætti.

„Félagið stendur með þeim aðilum sem eiga um sárt að binda vegna þessa máls,” segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka