Var ekki viss hvort þetta væri draumur

Sonja Sigurðardóttir og Már Gunnarsson.
Sonja Sigurðardóttir og Már Gunnarsson. Ljósmynd/ÍF

Sundfólkið Már Gunnarsson og Sonja Sigurðardóttir voru í gær útnefnd íþróttakarl og íþróttakona Íþróttasambands fatlaðra fyrir árið 2023.

„Mér líður mjög vel, þótt ég skjálfi smá,“ sagði Sonja í samtali við Morgunblaðið í gær. Hún hlaut nafnbótina í fjórða skipti í gær, en það gerði hún einnig árið 2008, 2009 og 2016. Aðeins sundkonurnar Kristín Rós Hákonardóttir og Thelma Björg Björnsdóttir hafa hlotið verðlaunin oftar.

Mjög ánægð með árið

Sonja er orðin ansi vön því að taka við verðlaununum, en þrátt fyrir það var hún hrærð þegar henni var tilkynnt að nafnbótin væri hennar í fjórða sinn. „Ég var ekki viss hvort þetta hefði verið draumur eða ekki þegar ég vaknaði morguninn eftir að ég fékk símtalið,“ sagði hún.

Sonja synti til úrslita í fjórum greinum á HM í Manchester og náði þar bestum árangri í 50 metra baksundi, eða fimmta sæti. Þá varð hún sjötta í 200 metra skriðsundi og sjöunda í bæði 100 metra skriðsundi og 50 metra skriðsundi. Hún er í sjötta sæti heimslistans í 50 metra baksundi sem stendur. Sonja sagði heimsmeistaramótið standa upp úr á árinu sem er að líða.

„Ég er mjög ánægð með árið. HM stóð upp úr hjá mér. Það var ekki eitthvert eitt augnablik, heldur bara HM eins og það lagði sig,“ sagði hún.

Sonja ætlar sér á Ólympíumót fatlaðra í París á næsta ári og sömuleiðis EM í apríl og því nóg fram undan. „Ég vil til Parísar á stærsta sviðið. Svo er Evrópumeistaramótið í apríl,“ sagði Sonja.

Nánar er rætt við Sonju og einnig við Már á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka