Hamilton gengur til liðs við Ferrari

Lewis Hamilton er sá sigursælasti í Formúlu 1 ásamt Michael …
Lewis Hamilton er sá sigursælasti í Formúlu 1 ásamt Michael Schumacher. AFP/Chris Graythen

Breski ökuþórinn Lewis Hamilton, sem hefur keyrt fyrir keppnislið Mercedes frá árinu 2013 og unnið á þeim tíma sjö heimsmeistaratitla, hefur ákveðið að skipta um lið og keyra fyrir Ferrari eftir tímabilið.

Þetta eru því ein stærstu félagaskipti í sögu Formúlu 1 en þrátt fyrir að illa hafi gengið hjá kappanum síðustu tvö ár þá virðist hann þó enn vera með það sem þarf til þess að vinna keppnir.

Sky Sports greinir frá félagaskiptunum í dag en hvorki Hamilton né Mercedes hafa staðfest þessar fregnir. Hamilton skrifaði undir nýjan samning við Mercedes í fyrra út árið 2025 en óljóst er hvernig félagaskiptunum verður háttað, hvort seinna árið hafi verið valkvætt eða hvort Ferrari kaupi hann af Mercedes.

Líklegt er að hann taki við af hinum spænska Carlos Sainz en samningsviðræður við hann hafa dregist á langinn og nú þarf hann að fara að finna sér annað lið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert