Gríðarlega sterkt mót í Höllinni

Freyja Nótt Andradóttir er gríðarlega efnileg hlaupakona.
Freyja Nótt Andradóttir er gríðarlega efnileg hlaupakona. mbl.is/Óttar Geirsson

Frjálsíþróttakeppni Reykjavíkurleikanna fer fram í Laugardalshöll í dag og mætir margt af sterkasta frjálsíþróttafólki Íslands til leiks, ásamt sterkum erlendum keppendum.

Erna Sóley Gunnarsdóttir og Guðni Valur Guðnason, frjálsíþróttafólk ársins 2023, keppa í kúluvarpi. Erna Sóley er Íslandsmethafi í greininni en Guðni er Íslandsmethafi og ólympíufari í kringlukasti.

Baldvin Þór Magnússon keppir í 1.500 hlaupi þar sem hann á best 3:40,36 mínútur sem er Íslandsmet utanhúss. Íslandsmetið innanhúss á Jón Diðriksson, sem er 3:45,6 mínútur, og fellur því Íslandsmet ef Baldvin er nálægt sínu besta. Norðmaðurinn Kjetil Gagnås mun væntanlega veita honum harða keppni, en hann á best 3:42,20 mínútur.

Baldvin Þór Magnússon freistar þess að slá Íslandsmetið innanhúss.
Baldvin Þór Magnússon freistar þess að slá Íslandsmetið innanhúss. mbl.is/Óttar Geirsson

Kolbeinn Höður Gunnarsson átti að keppa í 60 metra hlaupi en hann verður fjarri góðu gamni. Daninn Kojo Musah er því mjög sigurstranglegur en hann keppni m.a. á Ólympíuleikunum í Tókýó.

Hin hollenska Naomi Sedney, sem hefur farið á tvenna Ólympíuleika, og hin 13 ára gamla Freyja Nótt Andradóttir munu berjast í 60 metra hlaupi. Sedney á best 7,22 sekúndur og Freyja 7,58 sekúndur.

Irma Gunnarsdóttir stökk 6,45 metra í langstökki á Stórmóti ÍR í byrjun árs og var níu sentímetrum frá Íslandsmeti Hafdísar Sigurðardóttur. Hún freistar þess að slá metið, sem er átta ára gamalt. 

Keppni hefst klukkan 14 og stendur til 16 í Laugardalshöllinni, en hægt er að fylgjast með öllum greinum beint hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert