Íslendingurinn ungi ber keppnisnúmer afa síns

Aron Dagur Júlíusson byrjaði að hjóla þriggja ára gamall.
Aron Dagur Júlíusson byrjaði að hjóla þriggja ára gamall. Ljósmynd/Aðsend

Stór verkefni eru framundan hjá Aroni Degi Júlíussyni og fjölskyldu hans, en Aron hefur skrifað undir samning hjá spænska motorcross-liðinu DDR Racing Team einungis tíu ára gamall. Faðir Arons segir akstursíþróttir vera í fjölskyldunni en Aron ber keppnisnúmer afa síns, 36.

Faðir Arons viðurkennir að verkefnið framundan verði tímafrekt og kostnaðarsamt, en ekki sé víst að tækifærið bjóðist aftur.

Aron er yngsti Íslendingurinn í íþróttinni sem skrifar undir samning við erlent keppnislið.

Ber keppnisnúmer afa síns

Aron byrjaði að hjóla á þriggja ára afmælisdeginum sínum og ber keppnisnúmer afa síns, 36, en afi hans keppti í Enduro-mótorhjólakeppnum á sínum tíma. 

Júlíus Ævarsson, faðir Arons kveðst sjálfur hafa verið í mótorhjólum og rallý og að Aron hafi alltaf sýnt mótorhjólum og rallýbílum mikinn áhuga. 

Þetta er þá í fjölskyldunni?

„Já já, þetta kemur úr fjölskyldunni og þetta er mikið fjölskyldusport,“ segir Júlíus en bendir á að þau eigi einnig dóttur sem var áður mikið í mótorhjólum en færði sig svo yfir í hestamennskuna.

„Líklega eina sportið sem hægt er að finna sem er dýrara en mótorhjól en áfram gakk,“ segir hann og hlær. 

Þá segir Júlíus að Aroni hafi alltaf þótt gaman að hjóla sem endaði með því að hann byrjaði að mæta á æfingar. „Svo vatt þetta svona skemmtilega upp á sig“.

Breyttu til og fluttu til Spánar

Þegar Aron var sjö ára tók fyrirtækið Arctic Trucks eftir honum og bauð honum að hjóla fyrir Yamaha í 65 cc keppnisflokknum, þar sem Aron keppir enn. 

Haustið 2022 flutti fjölskyldan til Spánar til þess að breyta til. Þá gerðist það einn daginn að Aron handleggsbraut sig í fótboltaleik við vini sína.

„Það er pínu magnað svona miðað við sportið sem hann stundar að hann skuli svo handleggsbrotna í fótbolta með strákunum.“

Við tók bataferli og hafði Aron því ekki tök á að æfa sig í sex mánuði. 

„Við gátum þannig ekki hjólað mikið síðasta veturinn en þennan veturinn fórum við að hjóla aftur á fullu.“

Liðið fylgdist með honum 

Eftir að Aron byrjaði að hjóla aftur tók hann þátt í þremur stærri keppnum úti á Spáni en þar var lið DDR Racing Team að fylgjast með honum.

„Þau voru þá svona ánægð með seigluna, tæknina og jákvæðnina hjá honum,“ segir Júlíus og segir liðið hafa haft samband við hann að fyrra bragði. 

Júlíus flutti aftur heim frá Spáni í september á síðasta ári vegna vinnu og fjölskyldan mun flytja aftur heim á næstu dögum. 

Tækifæri sem er ekkert víst að komi aftur 

Aðspurður hvort þessi samningur muni ekki kalla á mikið af ferðalögum út fyrst fjölskyldan fer að koma aftur heim kveður Júlíus svo vera.

„Jú það kallar nefnilega á rosalega mikið af ferðalögum. Það eru átta keppnir skipulagðar á þessu ári,“ segir hann og bætir því við að þau gætu þurft að sækja sérstakar æfingar til viðbótar við þessar átta keppnir.

„Þannig þetta verður fjör!“

Þið eruð alveg til í þann slag?

„Þetta er bara þannig tækifæri að við vildum láta reyna á það. Þetta er allra barna draumur sem vilja ná langt í íþróttum að komast í stórar keppnir og keppa við þá bestu,“ segir hann en viðurkennir að verkefnið verði bæði tímafrekt og kostnaðarsamt.

„En þetta er bara tækifæri sem er ekkert víst að komi nokkurn tímann aftur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert