Akstursíþróttamaðurinn Aron Dagur Júlíusson skrifaði á dögunum undir samning við motocross-liðið DDR Racing Team á Spáni. Aron Dagur er einungis tíu ára gamall.
Þar með er hann yngsti Íslendingurinn sem skrifar undir samning við erlent motocross-lið.
Aron Dagur hefur æft motocross af kappi síðan hann fékk fyrsta krossarann sinn einungis þriggja ára gamall.
Undanfarin ár hefur Aron Dagur keppt á Íslandi og unnið til verðlauna auk þess að keppa á Spáni í lok síðasta árs.
Í tilkynningu kemur fram að markmiðin í ár séu stór fyrir íþróttamanninn unga.
Aron Dagur mun til að mynda taka þátt á Andalúsíu-meistaramótaröðinni á Spáni. Fyrsta mótið í mótaröðinni fer fram næstkomandi sunnudag, 11. febrúar.
Þar að auki stefnir Aron Dagur á að keppa fyrir Íslands hönd á heimsmeistaramóti unglinga sem fer fram í Belgíu í september.