Íþróttadeild Morgunblaðsins og mbl.is heldur áfram að gramsa í myndasafni Morgunblaðsins og birta á mbl.is á laugardögum.
Um áramót og í byrjun nýs árs vekur verðlaunagripurinn sem afhentur þeim sem hlýtur sæmdarheitið Íþróttamaður ársins hjá Samtökum íþróttafréttamanna gjarnan umtal. Þeir sem starfa á íþróttadeild mbl.is þekkja það vel að fá spurningar um verðlaunagripinn sem afhentur hefur verið frá árinu 2006.
Samtök íþróttafréttamanna komu kjörinu á fót árið 1956 og voru samtökin stofnuð sama ár. Á 50 ára afmæli samtakanna var ákveðið að verðlaunagripurinn sem afhentur var íþróttamanni ársins skyldi fundinn staður á Þjóðminjasafninu.
Árið 2006 var því nýr verðlaunagripur veittur og var handknattleiksmaðurinn Guðjón Valur Sigurðsson sá fyrsti sem veitti honum viðtöku eftir að hafa hafnað í efsta sæti í kjörinu 2006.
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands gaf verðlaunagripinn sem hannaður var af Sigurði Inga Bjarnasyni gullsmið. „Sér til halds og traust við vinnuna hafði hann góðan hóp manna sem eru gullsmiðirnir Sveinn Gunnarsson, Hans Kristján Einarsson og Sveinn Ottó Sigurðsson. Trésmiðurinn Örn Jónsson og glerblásararnir Jette Böge Sörensen og Rickard Thunberg,“ segir á vef samtakanna.
Sigurður Ingi var einmitt í viðtali í Ríkissjónvarpinu á dögunum þar sem verðlaunagripurinn var til umfjöllunar. Þegar verðlaunagripurinn hafði verið veittur í nokkur ár var Sigurður Ingi fenginn til að gera minni útgáfu og sú útgáfa hefur verið afhent íþróttamanni ársins síðustu árin.
Gripurinn var mjög stór í upphaflegri mynd eins og sést á meðfylgjandi mynd sem Jón Svavarsson tók fyrir Morgunblaðið og mbl.is á hófinu árið 2007. Þá hlaut Margrét Lára Viðarsdóttir sæmdarheitið Íþróttamaður ársins. Ólafur Stefánsson og Ragna Ingólfsdóttir eru sitt hvoru megin við Margréti en þau höfnuðu í 2. og 3. sæti í kjörinu 2007 eða í annað sinn sem gripurinn var veittur.
Um verðlaunagripinn má lesa nánar á vef Samtaka Íþróttafréttamanna en þar stendur til að mynda: „Verkið er smíðað með vísun í náttúru Íslands sem mótað hefur þessa þjóð og hennar þrótt. Náttúra Íslands endurspeglast í margvíslegu efni verksins, lögun þess og litbrigðum. Þessir eiginleikar verksins vísa um leið til fjölbreytni íþróttanna og þess styrks og þeirrar þrautseigju sem einkenna afreksmenn íslenskra íþrótta hverju sinni.“