„Ég er dálítið stífur í bakinu en annars góður,“ segir Helgi Briem sem í gær, þriðjudag, hafnaði í fjórða sæti af sex í -93 kg flokki 60 til 69 ára á Evrópumeistaramótinu í kraftlyftingum öldunga í Málaga á Spáni.
Jafnaði Helgi tvö eigin Íslandsmet, í hnébeygju og bekkpressu, 165 og 130 kg, og hampaði bronsverðlaunum í bekkpressunni í sínum flokki.
„Ég er búinn að vera í vandræðum með hnéð á mér í mörg ár svo ég opnaði frekar létt í hnébeygjunni, í 155 kílóum, og fannst það bara djöflinum þyngra,“ segir Helgi. Ég hafði hugsað mér að fara í 167 næst og svo kannski eitthvað meira en við ákváðum bara að vera passasöm með þetta og fara í 160,“ segir hann frá. Upp fóru 160 kílóin.
Kveður Helgi það hins vegar hafa komið sér á óvart að þriðja lyftan, 165 kg, hafi reynst honum léttust. „Ég breytti aðeins um stíl, setti stöngina neðar á bakið og svo bara flaug hún upp. Ég hefði kannski átt að fara aðeins brattar í þetta,“ segir hann, enda alltaf þægilegt að vera vitur eftir á.
„Ég var langneðstur eftir beygjuna, ég er hnébeygjukrypplingur,“ segir Helgi og hlær við. Hann opnaði svo í 125 kg í bekkpressunni og þótti stöngin þung þótt hann eigi meira inni þar á bænum. „Svo fékk ég ógilda 130, lyfti botninum aðeins, en hún fór upp,“ segir hann frá en óvænt glufa að bronsinu opnaðist þegar sterkasti bekkpressumaður flokksins féll úr keppni, Þjóðverji sem í fyrstu lyftu tók 145 og hafði ekki, en hækkaði þá öllum að óvörum í 152,5 kg sem í tveimur eftirstandandi tilraunum vildu heldur ekki upp.
„Þá rauk ég upp í bronssæti í bekk alveg óvænt,“ segir Helgi sem heppnaðist með 130 kílóin í þriðju lyftunni og jafnaði sem fyrr segir eigið Íslandsmet.
„Svo er ég nú vanalega góður deddari,“ heldur Helgi áfram og vísar til réttstöðulyftunnar sem ekki gekk þó á öllum strokkum hjá honum í gær. „Ég ákvað að opna á 212,5 sem er smábæting á meti sem ég á sjálfur en þá fór í verra,“ segir Helgi sem þó brást bogalistin í sinni grein, hafði stöngina ekki upp en togaði og togaði þar til hann að eigin sögn var orðinn helaumur í bakinu.
„Ég fékk mjög harkalegt tiltal frá Kristleifi [Andréssyni] þjálfara og tók þyngdina í annarri. Svo ætlaði ég að reyna 217 vegna þess að annar í flokknum var með 215 og hafði klikkað tvisvar á 235,“ segir Helgi og ákvað að reyna að hrifsa bronsið í deddinu. Þær heilladísir brostu þó ekki í gær.
„Ég var alveg kominn í steik í bakinu eftir þessa fyrstu misheppnuðu tilraun og um leið og ég togaði fékk ég svakalegan bakverk og hætti bara við,“ segir hann frá og kveðst ánægður með fjórða sætið, hann hafi vigtast inn í flokkinn í sjötta sæti.
EM í Málaga er annað alþjóðlegt mót Helga sem tók að æfa kraftlyftingar rúmlega fertugur enda altalað í bransanum að þar sé aldrei of seint að byrja. Æfir hann undir merkjum lyftingadeildar Ármanns.
Langt aftur á horfinni öld gat Helgi sér hins vegar gott orð í karate og komst í fjölmiðla þegar hann gaf út kennslubók í karate árið 1976, þá þrettán ára gamall nemandi í öðrum bekk Vogaskóla.
Þar með lýkur viðtalinu óvænt þar sem Helgi Briem situr og jafnar sig í bakinu á vertshúsi í Málaga, fæðingarborg listmálarans sjálfs Pablos Picassos.
„Ég er hérna með steik fyrir framan mig og mér er sagt að ég megi ekki byrja fyrr en ég er búinn að tala við þig,“ segir Helgi en ljóstrar engu upp um hvort þar fari Kristleifur þjálfari enn með ægivald sitt yfir keppendum sem nær út yfir alla keppnisvelli.
Leggjum við þar talið.