Guðni náði sínum besta árangri

Guðni Valur Guðnason kastar kúlunni í dag.
Guðni Valur Guðnason kastar kúlunni í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

Guðni Valur Guðnason úr ÍR stóð uppi sem sigurvegari í kúluvarpi á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum innanhúss í Laugardalshöll í dag og náði þar sínu besta kasti á ferlinum innanhúss.

Guðni Valur kastaði kúlunni lengst 18,93 metra, náði því í sjöttu atrennu, og bætti sinn besta árangur um þrjá sentimetra.

Í 1.500 metra hlaupi kvenna gerði hin 18 ára gamla Embla Margrét Hreimsdóttir úr FH sér lítið fyrir og setti mótsmet er hún kom í mark á tímanum 4:33,79.

Var það um leið hennar besti tími í greininni.

Í 60 metra hlaupi karla kom Kolbeinn Höður Gunnarsson fyrstur í mark á tímanum 6,86 sekúndum. Íslandsmet hans í greininni er 6,68 sekúndur.

Kolbeinn Höður Gunnarsson var nokkuð frá Íslandsmeti sínu.
Kolbeinn Höður Gunnarsson var nokkuð frá Íslandsmeti sínu. mbl.is/Óttar Geirsson

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir úr ÍR kom fyrst í mark í 400 metra hlaupi kvenna er hún hljóp á 55,72 sekúndum.

Í hástökki kvenna reyndist Birta María Haraldsdóttir úr FH hlutskörpust er hún stökk hæst 1,74 metra.

Í öðru sæti var Helga Þóra Sigurjónsdóttir úr Fjölni, sem stökk hæst 1,68 metra.

Irma Gunnarsdóttir vann í þrístökki kvenna með því að stökkva lengst 13,30 metra. Íslandsmet hennar í greininni er 13,36 metrar.

Irma Gunnarsdóttir bar sigur úr býtum í þrístökki.
Irma Gunnarsdóttir bar sigur úr býtum í þrístökki. mbl.is/Óttar Geirsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert