Ætlum okkur alla leið

Tryggvi Snær Hlinason.
Tryggvi Snær Hlinason. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þessi leikur gegn Ungverjalandi leggst mjög vel í mig,“ sagði hinn 26 ára gamli Tryggvi Snær Hlinason, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í körfuknattleik, á æfingu íslenska liðsins í Laugardalshöll í gær.

Íslenska liðið hefur leik í B-riðli undankeppni Evrópumótsins annað kvöld, fimmtudagskvöld, þegar liðið tekur á móti Ungverjalandi í Laugardalshöllinni en leikurinn hefst klukkan 19:30.

Ítalía og Tyrkland leika einnig í sama riðli og mætast þau í Pesaro á Ítalíu á sama tíma en Ísland mætir svo Tyrklandi í Istanbúl hinn 25. febrúar í síðari leik sínum í þessum landsleikjaglugga.

„Ungverjarnir eru með sterkt lið og við þurfum að hafa góðar gætur á bæði skotbakvörðunum þeirra, sem og á framherjanum þeirra. Hann er Bandaríkjamaður að upplagi, Mikael Hopkins, og hann er í raun arkitektinn að öllum þeirra sóknarleik.

Við þurfum því að leggja kapp á að reyna að halda honum niðri í leiknum og sjá til þess að hann komist ekki í þær stöður og í þau svæði sem hann vill helst sækja í,“ sagði Tryggvi Snær sem á að baki 63 A-landsleiki.

Þetta er stórmótið okkar

Íslenska liðið hefur tvívegis leikið í lokakeppni Evrópumótsins, árið 2015 í Þýskalandi og árið 2017 í Finnlandi, en liðið var aðeins stigi frá því að tryggja sér sæti í lokakeppni HM 2023 sem fram fór á Filippseyjum, í Indónesíu og í Japan síðasta sumar.

„Því miður var enginn landsleikjagluggi í nóvember og það er því frekar langt síðan landsliðið kom saman síðast. Lokakeppni Evrópumótsins er sú keppni sem við horfum alltaf til og það er stærsta markmiðið okkar, að tryggja okkur sæti í lokakeppninni.

Þetta er í raun stórmótið okkar ef svo má segja enda hefur íslenska landsliðið tvívegis áður tryggt sér sæti í lokakeppninni. Við erum því mjög spenntir að hefja leik í undankeppninni, ég hef mikla trú á þessu liði og við ætlum okkur alla leið.“

Viðtalið í heild sinni er í Morg­un­blaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert