Átta sentimetrum frá verðlaunasæti

Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir var skammt frá verðlaunum.
Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir var skammt frá verðlaunum. mbl.is/Hákon Pálsson

Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir var átta sentimetrum frá því að komast á verðlaunapall á bandaríska háskólameistaramótinu innanhúss, NCAA, í frjálsíþróttum í Boston í nótt.

Guðrún komst á mótið í lóðkasti þar sem hún var fyrirfram með níunda besta árangur af þeim sextán keppendum úr háskólunum víðs vegar að úr Bandaríkjunum sem fengu þátttökurétt.

Hún gerði hins vegar gott betur en það og endaði í fjórða sæti, kastaði 22,07 metra, og var átta sentimetrum á eftir Jasmine Mitchell sem kastaði 22,15 metra og náði í bronsið.

Íslandsmet Guðrúnar í greininni er 22,44 metrar. Jalani Davis varð háskólameistari með yfirburðum en hún kastaði 24,80 metra og Shelby Frank fékk silfrið með kasti upp á 22,69 metra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert