Alexander Örn Kárason hafnaði í fimmta sæti í -93 kg flokki á Evrópumótinu í klassískum kraftlyftingum í Velika Gorija í Króatíu sem lauk í gær en 21 keppandi atti kappi í hans flokki en þar keppti einnig fyrir Íslands hönd Harrison Asena Kidaha.
Alexander hóf keppni með 280 kg í hnébeygju og bætti þar eigið Íslandsmet um fimm kg. Þá lyfti hann 187,5 kg í bekkpressu og reyndi við 197,5 kg sem fór örugglega upp og gáfu tveir dómarar af þremur hvítt ljós, gilda lyftu. Sá þriðji vildi meina að Alexander hefði hafið lyftuna of snemma úr neðstu stöðu, áður en hann fékk merki um og féllst kviðdómur á þann skilning dómarans. Hefði lyftan tryggt Alexander silfurverðlaun.
Í réttstöðulyftu reif hann upp 312,5 kg sem enn var fimm kg bæting á hans eigin Íslandsmeti og lauk hann þar me keppni með 780 kg í samanlögðu, 2,5 kg bætingu á Íslandsmeti hans. Fimmta sæti í samanlögðu var lokastaðan sem var besti árangur þeirra níu Íslendinga sem að þessu sinni tóku þátt.
Harrison Kidaha keppti í B-hópi þyngdarflokksins og lyfti 250 kg í hnébeygju. Lenti hann í vandræðum með dýpt beygjunnar sem dómarar vildu ekki gera sig ánægða með en hafði hann að lokum í gegn gilda lyftu í þriðju tilraun.
Í bekkpressu gekk Kidaha vel, lyfti 180 kg og bætti þar sinn besta árangur um fimm kg. Í réttstöðulyftunni lyfti hann 282,5 kg, sem var bæting um 7,5 kg, og var aðeins hársbreidd frá því að hafa 292,5 kg upp í þriðju lyftu. Samanlagður árangur hans var er upp var staðið 712,5 kg og hafnaði hann í 18. sæti flokksins.
Friðbjörn Bragi Hlynsson keppti í -83 kg flokki, sem var mjög sterkur flokkur á þessu móti, og byrjaði þar af krafti með 260 kg í hnébeygju sem er Íslandsmet og bætti þar eigið met um 2,5 kg. Í bekkpressu lyfti hann 155 kg og mátti litlu muna að 160 kg færu upp en þar lyfti hann afturhlutanum upp af bekknum í tvígang og mátti því sitja við 155 kílóin úr fyrstu lyftunni.
Réttstöðulyftan endaði í 285 kg og lauk Friðbjörn keppni með 700 kg í samanlögðu og 13. sæti í 14 keppenda flokki.
Drífa Ríkarðsdóttir keppti í -57 kg flokki, langfjölmennasta þyngdarflokki kvenna á þessu Evrópumeistaramóti, en meiðsli háðu henni töluvert á mótinu. Drífa hefur átt í bakmeiðslum og fór sér hægt í Króatíu enda stefnan tekin á heimsmeistaramót í sumar.
Um hennar fyrsta Evrópumót var að ræða og lyfti hún 115 kg í hnébeygju, 82,5 kg í bekkpressu og 155 kg í réttstöðulyftu. Var Drífa töluvert frá sínum besta árangri í hnébeygju og réttstöðulyftu og þurfti að gera sér 21. sætið að góðu í 22 keppenda flokki.
Arna Ösp Gunnarsdóttir keppti í -69 kg flokki þar sem 20 keppendur tóku á lóðunum og átti hún öruggan keppnisdag á föstudaginn með átta gildum lyftum. Tvíbætti hún eigið Íslandsmet í hnébeygju er hún lyfti 152,5 kg í annarri lyftu og 155 í þeirri þriðju. Í bekkpressu bætti hún sinn persónulega árangur um 2,5 kg og lyfti þar 90 kg í fyrsta sinn.
Í réttstöðulyftu hafði hún 172,5 kg upp en háði góða rimmu við 177,5 kg sem ekki vildu upp í þetta sinnið. Samanlögð þyngd Örnu Aspar var 417,5 kg sem skilaði henni 18. sætinu.
Viktor Samúelsson keppti í -105 kg flokki þar sem 21 keppandi var skráður til leiks. Í hnébeygju lyfti hann mest 285 kg og reyndi við Íslandsmet í þriðju tilraun með 292,5 kg sem ekki vildi upp í það sinnið. Í bekkpressu lyfti hann 192,5 kg og náði 9. sæti í greininni en réttstaðan endaði í 312,5 kg og samanlögð þyngd Viktors því 790 kg sem skilaði honum 11. sæti í flokknum.
Aron Friðrik Georgsson keppti í -120 kg flokki og varð fyrir því að fá enga lyftu gilda í hnébeygju, dæmdu tveir dómarar alltaf ógild á móti einum og ástæðan alltaf að Aron fór ekki alveg nógu djúpt í neðstu stöðu.
Í bekkpressu lyfti hann 180 kg mjög sannfærandi og reyndi svo í tvígang við 192,5 sem ekki fóru upp þetta mótið. Í réttstöðu lyfti hann 270 og 280 kg örugglega en 290 verða að bíða um sinn. Lenti Aron ekki í sæti þar sem hann átti enga gilda lyftu í hnébeygju.
Þorbjörg Matthíasdóttir keppti í +84 kg flokki og lyfti 190 kg í hnébeygju, 97,5 kg í bekk og 177,5 kg í réttstöðulyftu. Var hún mjög nálægt sínum besta árangri í öllum greinum en hafnaði í 7. sæti af sjö.
Að lokum keppti Þorsteinn Ægir Óttarsson í +120 kg flokki og lyfti þar 315 kg í hnébeygju og 200 í bekkpressu. Sannfærandi lyftu átti hann með 300 kg í réttstöðu en þar höfðust 310 kg ekki upp og hafnaði Þorsteinn í 5. sæti af sex.