„Með þessa tvo þá ættir þú ekki að geta tapað leik“

Kári að hefja fögnuð eftir að hann skoraði eitt þriggja …
Kári að hefja fögnuð eftir að hann skoraði eitt þriggja marka sinna í kvöld. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Kári Arnarsson var í essinu sínu í kvöld þegar SR sótti SA-Víkinga heim í fyrsta leik úrslitakeppni úrvalsdeildarinnar í íshokkí. Hann skoraði þrjú fyrstu mörk SR í 4:3-sigri liðsins. SR leiðir þá 1:0 í einvíginu en næsti leikur fer fram í Laugardalnum á fimmtudag.

Kári kom í stutt spjall við mbl.is eftir leik og var hinn kátasti. „Það bara endaði allt í markinu hjá mér í dag, Ég er ekki vanur að skora þrjú mörk í leik,“ sagði Kári.

Þú ert með góða menn í línunni þinni. Styrmir Maack og Ólafur Björnsson að mata þig eða gefa þér færi á fráköstum.

„Ekkert að þessum mörkum hefðu komið á þeirra framlags. Þeir voru duglegir að senda á mig og þetta er þeim að þakka.“

SR-ingar fagna í kvöld.
SR-ingar fagna í kvöld. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Sást þú hvað gerðist í fjórða markinu ykkar? Þetta var allt saman stórundarlegt.

„Ég stóð þarna rétt við mark SA. Petr var að reyna að senda á mig en mér sýndist leikmaður SA reyna að slá pökkinn í burtu en hann endaði í markinu. Ég er ekki alveg viss með þetta. Ég sá bara pökkinn í markinu og fór bara og fagnaði.“

Fyrir ungan mann eins og þig hve mikið tekur þessi úrslitakeppni á?

„Hún tekur alltaf á þegar það er leikur annan hvern dag. Það er kannski hægt að nýta það að vera ungur og ferskur. Þetta er erfitt en ógeðslega skemmtilegt. Maður verður bara að njóta. Mér finnst liðið í góðu standi eftir þéttar æfingar.

Þjálfarinn er búinn að láta okkur skauta mjög mikið og það er því að þakka að við erum með orku í fótunum. Mér fannst við ná að skauta meira en þeir og vorum bara sprækari í þessum leik.“

Hvaða náungi er þetta í markinu hjá ykkur? Jóhann Ragnarsson. Þetta nafn hef ég ekki séð áður.

„Hann er uppalinn SR-ingur en er búinn að vera tvö ár í Tékklandi. Hann er bestur þegar pressan er sem mest. Það er svo þægilegt að hafa hann fyrir aftan sig. Maður veit að hann er að fara að verja 95% af skotunum. Þegar hann fær á sig mark þá veit maður að það er langt í næsta. Hann var geggjaður í dag eins og hann er alltaf.“

Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Þið eruð þá ekki á flæðiskeri staddir með markmenn fyrst Atli Valdimarsson er til taks líka.

„Með þessa tvo þá ættir þú ekki að geta tapað leik,“ sagði Kári óhikað. „Mér finnst allt liðið bara hafa verið að stíga upp. Samkeppni er orðin meiri og tempóið hærra. Mér fannst það bara skila sér í dag. SA tók nokkra sigra gegn okkur í deildinni, sem mér fannst mjög súrt, þar sem mér fannst við ekkert síðri á þeim tíma.

Þeir tóku því deildarmeistaratitilinn. Við viljum auðvitað taka hann líka en nú er það bara okkar að ná Íslandsmeistaratitlinum aftur,“ sagði Kári sposkur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert