SR lagði SA að velli, 3:2, í oddaleik úrslitaleik Íslandsmótsins í íshokkí karla í Skautahöllinni á Akureyri í kvöld og tryggði sér þannig Íslandsmeistaratitilinn annað árið í röð.
Filip Krzak skoraði sigurmark SR þegar aðeins tæplega þrjár mínútur voru eftir af leiknum.
Skautafélag Akureyrar og Skautafélag Reykjavíkur létu sverfa til stáls í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn. Hvort lið hafði unnið tvo leiki í úrslitarimmunni en SA-Víkingar voru á heimavelli þar sem liðið hafði unnið deildarkeppnina.
Það er óhætt að segja að liðin hafi boðið upp á alvöru úrslitaleik þar sem spennan var æsileg og mikil og góð stemning í stappfullri Skautahöllinni á Akureyri. Í leikslok var stemningin öll meðal Reykvíkinga þar sem þeir unnu leikinn 3:2. SR hefur nú sótt tvo Íslandsmeistaratitla í röð norður til Akureyrar og hampaði titlinum í sjöunda skipti í dag.
Heimamenn í SA-Víkingum byrjuðu leikinn með stórsókn og var pökkurinn inni á sónarsvæði SA fyrstu mínúturnar. Loks þegar SR komst í sókn þá fékk Petr Stepanek dauðafæri en skot hans var varið. Petr gaf pökkinn þá út að sóknarlínu SR þar sem Kári Arnarsson beið. Kári lét svo bara vaða og söng pökkurinn í samskeytunum á marki SA. Glæsilegt mark en það kom eins og þruma úr heiðskíru lofti.
Heimamenn misstu aðeins dampinn við markið en héldu þó áfram að vera sterkari aðilinn. SA jafnaði leikinn með marki frá Arnari Helga Kristjánssyni. Það kom eftir langskot en pökkurinn rétt skreið yfir línuna eftir að Jóhann Björgvin Ragnarsson í marki SR hafði týnt honum í traffík framan við mark hans.
Fram að lokum leikhlutans var mikið fjör og bæði lið í færum en ekki komu fleiri mörk og staðan því 1:1 þegar annar leikhluti hófst.
Áfram héldu liðin að skiptast á að skapa færi en markverðirnir voru báðir í banastuði og staðan var enn 1:1 eftir hálftíma og spennan bara jókst hjá hinum fjölmörgu áhorfendum eftir því sem mínútur og sekúndur liðu. Tvö mörk komu undir lok leikhlutans. Fyrst skoraði Baltasar Hjálmarsson fyrir SA og héldu menn eflaust að SA færi með forskot inn í lokaleikhlutann. SR-ingar voru á öðru máli og aðeins hálfri mínútu síðar jafnaði Petr Stepanek í 2:2. SR-ingar spiluðu sig laglega í gegn um vörn SA og gat Petr ekki annað en skorað.
Þá var bara endaspretturinn eftir og spurning hvort liðið myndi tryggja sér Íslandsmeistarabikarinn. Má segja að heimamenn hafi sótt meira og minna allan leikhlutann en þeir náðu ekki að skora og þegar stutt var eftir kom mark frá SR. Filip Krzak komst á auðan sjó framan við mark SA og hann setti pökkinn í skeytin hægra megin. Skömmu síðar fækkaði á svellinu í liði SA og útlitið varð dekkra. Heimamenn náðu þó að blása í eina sókn og fá dóm á SR-inga. Var þá jafnt í liðum síðustu mínútuna og hana gátu Akureyringar ekki nýtt til að ná sér í framlengingu.
SR er Íslandsmeistari 2024.
Mörk/stoðsendingar:
SA: Baltasar Hjálmarsson 1/0, Arnar Helgi Kristjánsson 1/0, Unnar Hafberg Rúnarsson 0/1, Andri Már Mikaelsson 0/1, Hafþór Andri Sigrúnarson 0/1, Róbert Máni Hafberg 0/1.
SR: Petr Stepanek 1/2, Axel Orongan 0/2, Kári Arnarsson 1/0, Filip Krzak 1/0, Sölvi Atlason 0/1.
Refsimínútur:
SA: 6+10 mín.
SR: 10 mín.