„Þetta sigurmark var himnasending fyrir mig“

Sigrinum fagnað í kvöld.
Sigrinum fagnað í kvöld. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Petr Stepanek á afmæli í dag. Það er svo sem ekki í frásögur færandi nema hvað hann hélt upp á daginn með því að vinna Íslandsmeistaratitilinn í íshokkí karla með félögum sínum í Skautafélagi Reykjavíkur.

Petr er frá Tékklandi og er tröll að burðum, orðinn 34 ára og það mæddi mikið á kappanum í dag. Hann skoraði eitt mark og átti tvær stoðsendingar í 3:2 sigri SR. Ekki slæmt dagsverk.

„Ég er svo þreyttur en betri afmælisgjöf gæti ég ekki fengið. Ég er mjög ánægður“ sagði Petr skömmu eftir leik.

Petr var tvívegis í leiknum sendur í skammarkrókinn fyrir brot og mátti sjá að hann var alls ekki ánægður með það. „Ég er alltaf grautfúll þegar ég er sendur í refsiboxið. Ég get ekki álasað dómurunum fyrir það. Ég er tilfinningavera og sýni bara að ég er hundsvekktur. Dómarar leikjanna voru að standa sig gríðarlega vel í úrslitakeppninni.“

Þú ert aðeins búinn að vera eitt tímabil hér. Hvað sérðu fyrir þér á næsta ári?

„Nú veit ég ekkert hvert framhaldið verður. Það var ákveðin pressa að koma og spila með Íslandsmeistaraliðinu. Mér tókst alla vega að halda titlinum hjá SR og get sofið rólegur þar sem þetta blessaðist allt hjá okkur.“

Leikurinn í dag var mjög spennandi og jafn, eins og allt einvígið. Það kom reyndar 7:1 tap hjá ykkur í síðustu heimsókn til Akureyrar. Það voru reyndar tölur sem gáfu ekki alveg rétta mynd af leiknum en þessi skellur hefur brýnt ykkur til dáða.

„Þegar allt kemur til alls þá skiptir ekki öllu máli hvernig þú vinnur eða tapar í svona úrslitakeppni. Það var bara gott fyrir okkur að tapa svona stórt, svona eftir á að hyggja. Við unnum fyrsta leikinn hér á Akureyri og vorum í góðri stöðu í næsta leik á heimavelli. Þar fór allt í klessu og svo kom þetta stóra tap. Við þurftum bara núllstillingu og náðum að koma okkur aftur á fæturna. Í dag var þetta alltaf að fara að ráðast með einu marki. Akureyringar voru vissulega að sækja meira en það er ekki það sem telur. Mörkin skera úr um þetta og þar gerðum við betur. Markvörðurinn okkar, Jóhann Björgvin Ragnarsson, var mjög öruggur og vörnin líka þétt. Það var frábært að ná að skora og komast yfir þegar þrjár mínútur voru eftir. Ég skal vera alveg heiðarlegur við þig. Ég var farinn að kvíða framlengingu og sá ekki fram á að geta hreinlega staðið í fæturna mikið lengur. Þetta sigurmark var himnasending fyrir mig.“

Íshokkíleikmenn eru mikið á ferðalögum norður og suður og nánast alltaf í rútu. Nú bíður löng rútuferð Petr og félaga hans. Var hann að sjálfsögðu spurður út í það hvernig hann ætlaði að fagna deginum á heimleiðinni.

„Ég er ekki með neitt skipulagt. Ég efast um að ég komi til með að halla mér. Ég vildi ekki vera að spá neitt í heimferðina. Var bara niður á jörðinni með allt og reyndi að einbeita mér bara að leiknum.  Við hefðum getað tapað og þá hefði nú ekki orðið eins gaman. Það er náttúrulega páskafrí og löng helgi þannig að það verða sjálfsagt einhver fagnaðarlæti næstu daga“ sagði þessi huggulegi og skemmtilegi leikmaður að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert