Elísabet Rut Rúnarsdóttir og Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir, frjálsíþróttakonur úr ÍR, báru af í sleggjukasti á Bobcat Invitational-mótinu í Texasríki í Bandaríkjunum í gær.
Báðar slógu þær Íslandsmetið í greininni og höfnuðu sannfærandi í efstu tveimur sætunum.
Guðrún Karítas byrjaði á því að slá tveggja vikna gamalt Íslandsmet Elísabetar Rutar er hún kastaði 69,76 metra í fjórða kasti sínu. Íslandsmet Elísabetar Rutar frá því fyrir tveimur vikum var 69,11 metrar.
Hún gerði sér hins vegar lítið fyrir og stórsló Íslandsmet Guðrúnar Karítasar frá nokkrum mínútum áður. Elísabet Rut kastaði sleggjunni 70,33 metra í sjötta og síðasta kasti sínu.
Endurheimti hún þar með Íslandsmetið og tryggði sér um leið gullverðlaun á mótinu. Guðrún Karítas vann til silfurverðlauna, en um sjö metrar skildu að annað og þriðja sætið og báru íslensku sleggjukastararnir því af í gær.
Elísabet Rut er tæplega einum metra frá lágmarki til þess að tryggja sér sæti á Evrópumeistaramótinu sem fer fram í Róm í júní.