Guðrúnu að þakka að ég kastaði 70 metra

Elísabet Rut Rúnarsdóttir stolt með árangurinn.
Elísabet Rut Rúnarsdóttir stolt með árangurinn. Ljósmynd/Texas State

„Það er rosalega skemmtilegt,“ svaraði Elísabet Rut Rúnarsdóttir, Íslandsmethafi í sleggjukasti, í samtali við mbl.is aðspurð hvernig það væri að vera fyrsta íslenska konan til að kasta sleggju lengra en 70 metra. Elísabet kastaði lengst 70,33 metra á á Bobcat Invitational-mótinu sem fram fór í San Marcos í Texas um helgina.

Elísabet byrjaði á því að horfa á vinkonu sína Guðrúnu Karítas Hallgrímsdóttur slá Íslandsmet sitt frá því í síðasta mánuði, en Guðrún kastaði 69,76 metra í fjórðu umferðinni og sló fyrra Íslandsmet Elísabetar um rúman hálfan metra. Þá tók Elísabet til sinna ráða og kastaði fyrst íslenskra kvenna yfir 70 metra í lokaumferðinni.

„Það er búið að vera ótrúlega gaman síðustu daga, eftir að þetta tókst. Þetta er búið að vera markmiðið lengi og það var rosalega gaman að ná þessu og hafa góða samkeppni á meðan.

Elísabet Rut Rúnarsdóttir og Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir náðu glæsilegum árangri …
Elísabet Rut Rúnarsdóttir og Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir náðu glæsilegum árangri í Texas. Ljósmynd/Texas State

Það var æðislegt að sjá Guðrúnu bæta sig svona vel, en það ýtti mér lengra því ég vildi Íslandsmetið til baka. Ég ætla að segja að það sé Guðrúnu að þakka að ég náði að kasta 70 metra í síðasta kastinu.

Hefði hún ekki tekið Íslandsmetið af mér hefði ekki verið svona kveikt á mér. Við erum góðar vinkonur. Við æfðum saman með ÍR frá 2018 og höfum þekkst lengi,“ sagði Íslandsmethafinn.

Elísabet átti erfitt með að útskýra hvað small algjörlega í lokakastinu. „Ég veit það ekki alveg. Einhvern veginn tókst mér að hitta á þetta kast. Mér leið ekki eins og þetta væri 70 metra kast. Ég reyndi að sjá hvernig dómararnir brugðust við en þeir sýndu engin viðbrögð. Svo heyrði ég að þetta væri yfir 70 metra og það var ótrúlegt.“

Elísabet Rut Rúnarsdóttir
Elísabet Rut Rúnarsdóttir Ljósmynd/Texas State

Með kastinu er Elísabet komin í 20. sæti heimslistans. Hún ætlar sér að komast á EM fullorðinna í Róm í sumar og þá ætlar hún sér einnig á háskólameistaramótið vestanhafs.

„Ég vil halda mér sem efst á þessum heimslista og reyna að klifra hærra upp. Nú vantar einn metra upp á lágmarkið á EM fullorðinna, sem er markmiðið. Hér í Bandaríkjunum er svo markmiðið að komast á háskólameistaramótið,“ sagði hún.

Elísabet hefur búið í Texas frá árinu 2022. Þar er hún í háskólanámi og æfir við glæsilegar aðstæður.

„Þetta er öðruvísi en Ísland en mér finnst þetta mjög skemmtilegt. Það er æðislegt að vera í Texas og fólkið og mjög indælt og það vilja mér allir vel. Veðrið skemmir svo ekkert fyrir. Klukkan er ekki orðin 8 og það eru 22 gráður. Það eru frábærar aðstæður til að æfa og virkilega vel haldið utan um allan hópinn, bæði þegar kemur að náminu og íþróttunum.

Það er gott að finna þennan stuðning. Ég gæti ekki æft svona vel og mikið heima eins og ég er að gera úti. Það er þess vegna sem ég ákvað að taka þetta stökk og svo er gaman að prófa eitthvað nýtt og fara í ævintýri,“ sagði Elísabet Rut.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert