Barðist með heilahristing og taugaskaða

Ronda Rousey.
Ronda Rousey. Ljósmynd/UFC.com

Ronda Rousey, fyrrverandi bardagakappi í UFC í blönduðum bardagalistum, kveðst hafa tekið þátt í bardögum er hún var að glíma við heilahristing og taugaskaða.

Rousey vann fyrstu tólf bardaga sína á ferlinum örugglega áður en hún tapaði með rothöggi fyrir Holly Holm árið 2015.

„Það er erfitt að horfa á myndefni frá þessum bardaga því ég get bókstaflega séð það í augum mínum að ég er að glíma við taugaskaða sem hafði verið mörg ár í mótun.

Það pirrar mig þegar fólk horfir á þennan bardaga og segir: „Þarna mætti Ronda ofjarli sínum.“ Þarna er ég að berjast þegar heilinn minn virkar ekki sem skildi,“ sagði hún í samtali við BBC Sport.

Faldi meiðslin í langan tíma

„Ég var með heilahristing þegar ég fór inn í þennan bardaga. Ég datt niður stiga og rotaði sjálfa mig tveimur vikum fyrir bardagann,“ bætti Rousey við.

Hún barðist einu sinni til viðbótar í UFC eftir tapið fyrir Holm og tapaði þá fyrir Amöndu Nunes.

„Ég var búin að fela mörg tilfelli af heilahristingi og taugaskaða í svo langan tíma að það varð bara hluti af þessu.

Á þeim tímapunkti þvingaði ég sjálfa mig til þess að endurskoða hlutina og hugsaði með mér: „Heilinn þinn hefur orðið fyrir of miklum skaða í of mörg ár“,“ sagði Rousey einnig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert