Stórt tap gegn Spánverjum

Kvennalandslið Íslands í íshokkí.
Kvennalandslið Íslands í íshokkí. Ljósmynd/ÍHÍ

Íslenska kvennalandsliðið í íshokkí hóf keppni í 2. deild A á heimsmeistaramótinu með stórum ósigri gegn Spánverjum, 8:0, í Andorra í kvöld.

Spænska liðið hafði talsverða yfirburði eins og tölurnar bera með sér en staðan var 3:0 eftir fyrsta leikhluta og 5:0 eftir annan leikhluta.

Önnur úrslit í fyrstu umferð urðu þau að Taívan vann Belgíu, 3:1, og Kasakstan vann Mexíkó, 4:2.

Ísland mætir Belgíu í annarri umferðinni í Andorra í dag. Sigurliðið í deildinni vinnur sig upp í 1. deild B en neðsta liðið fellur niður í 2. deild B. 

Þjóðirnar sex eru flestar á svipuðum slóðum á heimslista IIHF en þar er Kasakstan í 22. sæti, Spánn í 24. sæti, Mexíkó í 25. sæti, Taívan í 26. sæti, Ísland í 27. sæti og Belgía í 36. sæti.

Deild Íslands, 2. deild A, er fjórða efsta deildin af átta á heimsmeistaramótinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert