Sannfærandi íslenskur sigur

Ísland vann sterkan sigur á Belgíu.
Ísland vann sterkan sigur á Belgíu. Ljósmynd/Stjepan Cizmadija

Íslenska kvennalandsliðið í íshokkí vann sinn fyrsta sigur í 2. deild A á HM í dag er liðið vann sannfærandi sigur á Belgíu, 5:2. Leikið er í Andorra.

Íslenska liðið lagði grunninn að sigrinum með glæsilegri fyrstu lotu, en staðan eftir hana var 3:0. Skiptust liðin svo á að skora næstu fjögur mörk og þriggja marka sigur varð raunin.

Katrín Rós Björnsdóttir gerði fyrsta mark Íslands á 4. mínútu og Kolbrún Björnsdóttir bætti við öðru markinu á 11. mínútu. Sigrún Agatha Árnadóttir sá um að gera þriðja markið á 13. mínútu.

Lotte de Guchtenaere minnkaði muninn strax í upphafi annarrar lotu en Amanda Ýr Bjarnadóttir kom Íslandi aftur í þriggja marka forystu á 36. mínútu.

Anke Steeno minnkaði muninn aftur þremur mínútum fyrir leikslok en Silvía Rán Björgvinsdóttir gulltryggði þriggja marka sigur í blálokin.

Ísland fékk skell gegn Spáni í fyrsta leik í gær og er því með einn sigur og eitt tap eftir tvo leiki. Liðið leikur við Kasakstan á miðvikudag, Mexíkó á fimmtudag og Tævan í lokaleik sínum á laugardag. Efsta lið riðilsins fer upp um deild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert