Anton Sveinn McKee gerði sér lítið fyrir og sló fimm ára gamalt Íslandsmet sitt í 100 metra bringusundi á Íslandsmeistaramótinu í 50 metra laug í Laugardalslauginni rétt í þessu.
Anton vann greinina á 1:00,21 mínútu en metið sem hann setti í Gwangju í Suður-Kóreu árið 2019 var 1:00,32 mínúta.
Snorri Dagur Einarsson veitti Antoni keppni í úrslitasundinu og varð annar á 1:03,04 mínútu.
Anton keppir í sinni aðalgrein, 200 metra bringusundinu, í Laugardalslauginni síðdegis á sunnudaginn.
Snæfríður Sól Jórunnardóttir, fremsta sundkona landsins, vann 50 metra skriðsund í kjölfarið á 25,62 sekúndum en Íslandsmetið í greininni sem Sarah Blake Bateman setti árið 2012 er 25,24 sekúndur.
Birnir Freyr Hálfdánarson úr SH sló eigið unglingamet og náði lágmarki fyrir Evrópumót unglinga þegar hann sigraði í 100 metra flugsundi á 55,22 sekúndum.
Guðmundur Leó Rafnsson úr ÍRB náði lágmarki fyrir Evrópumót unglinga þegar hann sigraði með yfirburðum í 200 metra baksundi á 2:04,10 mínútum.
Sveit Breiðabliks-1 setti nýtt unglingamet í 4x200 metra skriðsundi þegar hún sigraði á 8:35,46 mínútum. Blikar bættu tveggja ára met SH um heilar 16 sekúndur.
Vala Dís Cicero úr SH sigraði í 400 metra skriðsundi kvenna á 4:24,28 mínútum og náði lágmarki fyrir Evrópumót unglinga.
Veigar Hrafn Sigþórsson úr SH sigraði í 400 metra skriðsundi karla á 4:09,44 mínútum.
Ylfa Lind Kristmannsdóttir úr Ármanni sigraði í 50 metra baksundi kvenna á 30,44 sekúndum.
Nadja Djurovic úr Breiðabliki sigraði í 200 metra flugsundi kvenna á 2:29,13 mínútum.
Eva Margrét Falsdóttir úr ÍRB sigraði í 200 metra bringusundi kvenna á 2:36,75 mínútum.
Einar Margeir Ágústsson úr ÍA sigraði í 50 metra skriðsundi karla á 23,78 sekúndum.
Sveit SH sigraði í 4x200 metra skriðsundi karla á 7:49,10 mínútum.