Við settum í annan gír

Aron Bjarnason lagði boltann á Jason Daða Svanþórsson sem kom …
Aron Bjarnason lagði boltann á Jason Daða Svanþórsson sem kom honum á Viktor Karl Einarsson sem skoraði fyrsta mark Blika. Hér fagnar Viktor Karl því. mbl.is/Óttar

„Mér fannst þetta fínn leikur frá okkar hálfu,“ sagði Blikinn Aron Bjarnason í samtali við mbl.is eftir sigur Breiðabliks á Vestra, 4:0, á Kópavogsvelli í Bestu deild karla í knattspyrnu í dag. 

Með sigrinum komst Breiðablik í toppsæti deildarinnar en liðið er með fullt hús stiga eftir tvo leiki. 

„Við náðum að særa þá eins og við vildum. Eftir fyrri hálfleikinn vissum við að ef við héldum áfram að sækja í þau svæði sem þeir gáfu okkur þá myndum við uppskera. 

Við settum í annan gír í seinni hálfleik, gerðum svipaða hluti en allt var aðeins sneggra. Fastar sendingar og boltinn rúllaði betur. Svo náðum við marki snemma sem hjálpaði til,“ sagði Aron. 

Búið að vera frábært

Aron kom til Breiðabliks frá Sirius í Svíþjóð fyrir tímabilið. Hann hefur farið vel af stað en Breiðablik mætir Íslandsmeisturum Víkings í Fossvoginum næsta sunnudag. 

„Þetta er búið að vera frábært. Það gekk vel á undirbúningstímabilinu og við höfum tekið það með okkur inn í mótið. Við erum góðir varnarlega, vinnum vel fyrir hvorn annan. Mér finnst við eiga inni í spilinu sem er jákvætt. 

Við erum spenntir fyrir komandi leikjum. Þetta var bara að byrja. Það er svolítið í næsta leik og við tökum góða viku af æfingum. Byrjum svo að undirbúa okkur fyrir þann leik sem verður gaman að taka þátt í,“ bætti Aron við í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert